föstudagur, apríl 06, 2012

Prinsippin...

...eru engin lögmál. Allavega virðist ekki mikill vandi að brjóta prinsipp með einni ákvörðun. Við opnuðum ísbúðina á miðvikudaginn og fundum út að það væri asnalegt að hafa hana opna í tvo daga og loka svo þann þriðja. Það er því opið í dag föstudaginn langa en lokað á páskadag í staðinn. Ég skal reyndar viðurkenna að prinsippið að hafa allt lokað á föstudaginn langa er nokkuð naglfast í mér og ég þurfti að fara í smá rökræður við sjálfan mig til að ákveða að hafa opið.

Í fyrsta lagi er það bara venja úr uppeldinu að aðhafast ekkert þennan dag, þ.e. hvergi er talað um það í heilagri ritningu. Í öðru lagi er það náðin sem er ávöxtur krossfestingarinnar og síðan upprisunnar sem gerir að verkum að allt er í sjálfu sér leyfilegt og í þriðja lagi er meira af ferðamönnum á ferðinni í dag en á páskadag því þá eru allir heima að borða súkkulaði.

Föstudagurinn langi er samt í órofa sambandi við páskadag og saman mynda þeir undirstöður kristinnar trúar. Ég hef sagt það áður og segi enn að þessi hátíð ætti að vera stærsta hátíð kristinna manna en ekki jólin. Það var á þessum degi sem Kristur lýsti yfir á krossinum að verkið væri fullkomnað. Það var á þessum degi sem náðin varð til og án hennar væru margir kristnir menn margdæmdir norður og niður, því mörg verkin þeirra flokkast varla sem farmiði til himna.
Ég geng því brosandi út í daginn og opna ísbúðina því ég trúi á náðina.

Engin ummæli: