sunnudagur, apríl 29, 2012

"Mig hefur alltaf langað"...

Algeng setning sem maður heyrir hjá fólki. Einhver sagði að draumar væru til að láta þá rætast. Ef það er rétt þá ætti að fylgja þessari ágætu setningu nauðsyn þess að gera áætlun um hvernig. Ég hef heyrt svo marga tala um hvað þeim langar að gera í framtíðinni, læra eitthvað, fá sér aðra atvinnu, ferðalög, flytjast búferlum og svo allt milli himins og jarðar. Ég hef séð einstaka menn og konur láta verða af draumum sínum en miklu fleiri sem láta sér nægja að dreyma. Það er einkennandi fyrir fyrrnefnda hópinn að hann virðist gera plön um hvernig hægt er að ná markmiðinu. Sumir stoppa þar og virðast haldnir þeirri grillu að það sé nóg að gera planið og síðan ekki meira. Aðrir, og það eru þeir sem oftast ná markmiðum sínum eru þeir sem nenna að bæta síðasta ferlinu við sem er að bretta upp ermar og framkvæma. Þar skilur á milli.

Afhverju er ég að pæla í þessu. Jú ég hef verið að hugsa um þetta undanfarið því ég sé alltaf betur og betur eftir því sem árin líða hversu mikill smiður maður er að eigin gæfu og gæðum ef út í það er farið. Lífið er ekki bara lotterí og spurningin snýst ekki um hvort maður er heppinn eða óheppinn í lífinu þó auðvitað geti lukkan snúist á sveif með eða á móti. Miklu frekar er spurningin hversu vel vandarðu sporin þín og hversu mikla nennu hefurðu og kjark til að framkvæma það sem þig langar.

Stór hópur viðhefur upphafsorð þessa pistils og bætir við, "en ég er orðinn of gamall". Ég er algerlega ósammála þeirri fullyrðingu. Aldur er afstæður og því er allur aldur tilvalinn til að láta drauma sína rætast en allt of margir missa kjarkinn til þess þegar árunum fjölgar og hugsunin um að það styttist í annan endann verður ráðandi afl. Það afl er lífsgæðaræningi því það gefur mikla lífsfullnægju og hamingju að eiga sér markmið og vinna að því að láta það rætast.

Það er því ráð að skoða aðeins hvaða viðskeyti við eigum við þessi orð "mig hefur alltaf langað" rífa sig svo upp á rassinum, bretta upp ermar og hefjast handa.



Engin ummæli: