Vinir okkar Nína og Geiri mættu hér við hreiðrið sitt eins og öll árin á undan þrátt fyrir orðróm í fyrra um að dagar þeirra væru taldir. Þau koma alltaf á óvart. Ég var búinn að sjá álftapar útí í eyju en taldi það ekki vera þau Nínu og Geira því þau voru ekkert að sniglast við hreiðrið. Það var ekki fyrr en ég sá kallinn taka sprett á eftir gæs með útbreidda vængina sem ég þekkti taktana, Geira er meinilla við lágstéttargæsir enda sjálfur af óðalsættum og lætur þær hafa það óþvegið hvert sinn sem þær nálgast óðalið þeirra Nínu.
Í gærkvöldi sat Nína á hreiðrinu og lét fara vel um sig. Ég veit ekki hvort hún verpir en þau hafa ekki komið upp ungum síðustu árin þó þau hafi verið við hreiðrið og líkast að þau sitji á eggjum, ég held þau séu komin úr ungeign. Þau eru líklega orðin fjörgömul enda hafa þau átt heima þarna í eyjunni frá því löngu áður en við fluttum hingað sagði mér gömul kona, nágranni okkar, sem er dáin núna.
Það er orðið eitthvað svo heimilislegt að eiga þau fyrir nágranna og fylgjast með háttalagi þeirra svo það verður leiðinlegt þegar þau bregða búi og hætta þessu. Þau koma samt alltaf ár eftir ár eins og þau eigi níu líf, ég er alveg sáttur við það.
Njótið dagsins vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli