fimmtudagur, maí 17, 2012

Bylting á bökkunum

Dýrin eru ekki vitlaus og um margt lík okkur mannskepnunni. Mér er tíðrætt um þau nágranna okkar Nínu og Geira hér á blogginu mínu. Þau eru eins og lesendum mínum er kunnugt, óðalsbændur og hafa eignarhald sitt á hreinu gagnvart öðrum íbúum eyjarinnar. Þau eru harðstjórar og stjórna þegnum sínum með valdi og yfirgangi og leyfa sér að fara í fuglgreinarálit því gæsirnar eru lægstar í virðingarstiganum og bugta sig og beygja, eins og hundar í virðingarstiganum.

Þessir stjórnhættir heyra auðvitað undir lögmálið að sá sterkasti ræður sem er algengast í náttúrunni. Hins vegar er fylgifiskur þessa lögmáls að máttur margsins er meiri en sterkasti einstaklingurinn. Þetta veit hugsandi mannskepnan og nýtir sér stundum eins og sást t.d. í búsáhaldabyltingunni okkar margumtöluðu.
Það að skynlausar (eða hvað) skepnur geri uppreisn hlýtur að teljast svolítið merkilegt fyrirbæri.

Ég sagði í síðasta pistli að gæsirnar væru húmoristarnir í þessum fuglheimum. Við urðum áhorfendur að uppákomu í eynni í gær sem kannski kollvarpar þeirri hugmynd minni. Engu var líkara en að um skipulagða uppákomu væri að ræða. Gæsirnar komu að úr öllum áttum og sóttu að þeim hjónum. Ég taldi 23 gæsir sem gerðu aðsúg að þeim frá báðum hliðum í einu og hröktu Geira frá hreiðrinu meðan hann varðist á hægri og vinstri með vængjum og gogg í lengri tíma þangað til hann lagðist niður og virtist alveg búinn á því. Þá sneru þær sér að Nínu á hreiðrinu sem lamdi og barði frá sér þangað til hún gafst upp líka. Í framhaldi af þessu var heill hópur gæsa sperrtar á vappi innan um Nínu á hreiðrinu og Geira liggjandi úti í móa og virtist sem valdatíma þeirra væri lokið, þau liftu ekki einu sinni upp litlufjöður til að sýna vald sitt.
Það á þó eftir að koma í ljós hvort þetta voru bara skipulögð mótmæli til að sýna að þolinmæðin væri á þrotum eða hvort þetta var bylting og valdarán og nýtt stjórnmálaafl sé tekið við í eynni, Það væri þá saga til næsta hreiðurs, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.


Engin ummæli: