Viðvera í kofanum á Föðurlandi er himnesk. Frúin situr hér við hliðina á mér og þykist lesa bók en er meira hálfdottandi ofan í hana, það er allavega augljóst að hún er ekki í lestrarmaraþoni.
Morguninn heilsaði með sól og ágætis hitatölum sem sameiginlega gáfu okkur undir fótinn með göngutúr og útiveru. Við nýttum gærkvöldið í góðan göngutúr og ákváðum þá að fara aftur í dag og þá upp í haga að fornum sið. Góða veðrið hélst ekki lengi því það kólnaði hratt, vetur minnti aðeins á sig og eftir hádegið í dag var farið að snjóa og það drjúgt. Á tímabili var hundslappadrífa og allt hvítt. Staðreyndin er samt sú að það er kominn maí og ef sólin nær á annað borð að kíkja milli skýja þá er svona föl fljót að láta undan. Sú var líka raunin, það var hægt að sjá snjóinn bráðna, svo snögglega hvarf hann og bunurnar af þakbrúninni sýndu öðru frekar hversu mikil bráðnunin var.
Veran okkar hér er helgarfrí þó ekki sé helgi. Það getur stundum hentað betur að taka okkur pásu á virkum dögum en um helgar því við erum jú, með öðrum íhlaupum, ísbændur, og bændur eru ekki alltaf að spá í klukkuna eða dagatalið.
Ástæðan fyrir því að við getum kíkt á netið hér er síminn minn, en hann hefur þann ágæta eiginleika að nýtast sem ráder og því hægt að tengjast netinu þráðlaust eins og heima hjá sér, snilldin ein verð ég að segja.
Nú er allur snjór horfinn og dottið á dúnalogn. Fuglasinfónían er byrjuð aftur en hún þagnaði í snjókomunni enda varla ástæða fyrir greyin að syngja hástöfum í snjóbyl. Mér sýnist á öllu að fyrirheit dagsins um útiveru geti orðið að veruleika ef þetta heldur svona áfram. Ég verð þó að velja um tvennt... að leyfa frúnni að sofa, já hún er steinsofnuð, eða vekja hana í göngutúr.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli