sunnudagur, maí 27, 2012

Upp er runninn hvítasunnudagur...

...ákaflega bjartur og fagur. Enn einu sinni sit ég hér í sófanum mínum á Föðurlandi með dyrnar opnar og hlusta á þrastasönginn og hin vorhljóðin öll sem ég kann svo vel að meta. Hér hefur skaparinn vandað sig sérstaklega við samsetningu tilverunnar, var ég kannski búinn að segja ykkur það einhverntíman? Rigningin í gærkvöldi er jarðvegur ferskleikans sem núna blasir við og vorhljóðin óma hér í kyrrðinni, logn sól, flugnasuð og þrastasöngur... og hanagal.

Við horfðum á Júróvision í gærkvöldi og vorum eins og flestir Íslendingar stolt af þjóð okkar og þessu fallega lagi sem við sendum út til að sigra heiminn. Það viðurkennist að það vottaði fyrir tapsæri þegar rann upp fyrir okkur að lagið okkar var við það að sleikja botninn í vinsældakapphlaupinu sem háð er eftir að allir hafa lagt sitt á vogarskálarnar. Um leið er það kómískt að hafa upplifað aftur gamla Gleðibankafílinginn fyrir keppnina en við vorum nokkuð viss um að lenda allavega í öðru sæti og jafnvel fyrsta. Skemmtileg kómedía.

Erlan, þessi elska sem hefur fylgt mér svo lengi er ekki í vandræðum með hvernig á að eyða svona morgnum, hún sefur, og fer létt með það. Ég aftur á móti hvorki tími því eða get það. Svona er nú gott að geta gert það sem manni er kærast en þessi staður er til þess ætlaður.
Að vísu hvíla nú á mér nokkrar skyldur sem trufla aðeins í mér letigenið. Það liggur fyrir að gera "nokkur" handtök hér, eins og að bera á húsin, taka saman niðurhoggin tré og greinar sem liggja enn þar sem þau duttu í vor og svo þarf ég að klára millibygginguna. Æjh... þetta hleypur ekkert frá mér, eða svo segir mér gestur minn sem eyðir þessum morgni með mér... og ég trúi henni. Hún kíkir oft við hér og við eigum gjarnan fínasta samfélag saman þangað til ég hef ekki samvisku í annað en að vísa henni á dyr og oft þverskallast hún við að fara þrátt fyrir það. Ég hugsa að ég leyfi henni að vera með okkur í dag, hún er svo þægilegur gestur.
En frú Leti þú hypjar þig í fyrramálið!!!

Jæja best að hætta þessu tölvuveseni og bjóða gestinum með mér út á pall í sólina og vorið.
Njótið dagsins vinir.




Engin ummæli: