laugardagur, maí 12, 2012

Landnám

Landnámsmenn "helguðu" sér land og bara með þeim gjörningi "áttu" þeir landið sem innan helgunarinnar féll. Þannig var eignarrétturinn skilgreindur í þá daga. Enginn átti landið og lög heimiluðu að menn helguðu sér land með þessum hætti. Ingólfur Arnarson helgaði sér t.d. land frá Ölfusárósum til Þingvalla og þaðan í Hvalfjarðarbotn. hann sem sé átti allt Reykjanesið og Bláfjallasvæðið, Ölfusið, Kjósina og Hvalfjörðinn sunnanverðan með löglegum hætti. Afsalið var yfirlýsing um helgun landsins, það væri sæmileg jörð í dag.

Þessi réttur eins og hann birtist þarna flokkast væntanlega undir náttúrurétt sem er einskonar frumréttur. Sem dæmi má nefna berjamó þar sem margir koma saman og týna ber. Enginn á berin á lynginu áður en þau eru týnd en um leið og það er komið í krukku þá á sá berin sem lagði vinnu í að týna þau þó hann hafi ekki átt þau nokkrum mínútum fyrr og hafi ekki borgað fyrir þau. Náttúruréttur er samt sanngjarn því hann samþykkir ekki óhóf (spurning með Ingólf?). Það er hætt við að ef einhver týndi mörg tonn af berjum í berjalandinu og kláraði upp það sem væri annars til skiptana, er ekki jafnvíst að allir samþykktu eignarréttinn á því hlassi eins og berjakrukkunni með tveimur kílóunum í.

Mér datt þessi náttúruréttur í hug þegar ég var enn einu sinni að fylgjast með Geira í hólmanum í gær. Hann hefur greinilega helgað sér land sem hann telur sig hafa eignarrétt yfir. hann er mjög aggresífur þegar einhver vogar sér yfir landamerkin hans. Í gær var hann sérlega pirraður og þeyttist endanna á milli og barði og beit... gæsir auðvitað.
Það kómíska var að gæsirnar virtust gera sér grein fyrir að hægt væri að epsa hann því þær skiptust á að fara inn í landið hans á sitt hvorum endanum og létu hann þeytast á milli og engu líkara en að þetta væri leikur hjá þeim þó Geira - fúla, væri ekki skemmt. Gæsirnar hafa því vinninginn þegar kemur að því að hafa gaman.

Já svona geta nú litlu hlutirnir í lífinu verið stórskemmtilegir.
Njótið dagsins.

Engin ummæli: