sunnudagur, maí 06, 2012

Hver röndóttur..

Það þýðir lítið að vera að lofa okkur sól og láta Kára blása ísköldu í staðinn, þannig var það líka í gær, full sól í kortunum en kalt. Bærinn var troðfullur af fólki að spóka sig á sunnlenskum sveitadögum. Hátíð sem minnti á landbúnaðarsýninguna í gamla daga, sem við bræðurnir fórum á með pabba og mömmu. Þá var reyndar fleira sýnt en tæki og tól til landbúnaðar því svín, beljur, hestar og hænsn voru líka til sýnis. Það varð fleygt og lengi hlegið að því þegar ég sagði mömmu frá því með andakt að ég hefði séð gyltu sem var svo "svakalega feit að hún er næstum eins feit og þú mamma". Þetta áttu alls ekki að vera áhrýnisorð heldur lýsingarorð, mamma var sem betur fer nógu þroskuð til að vita það og hló manna mest, hún var yndismamma.

Ég er að fýlast út í Kára núna vegna þess að það er sunnudagur og þeir eru venjulega bestu söludagar vikunnar í ísnum. Kuldinn hefur samt líklega haft meira vægi í gær því fólk var úti við að skoða sýninguna og því kannski ekki það fyrsta sem þeim datt í hug að fá sér ís komandi norpin af norðangjóstinum í bílinn aftur.
Í dag er það hinsvegar hefðbundnara, fólk úti að keyra í heitum bíl og gluggaveðrið, sólin  og birtan æsa upp íslöngunina. Já það er ákveðin sálfræði í þessu eins og öðru.
Það verður samt ekki horft framhjá því að vorið er að banka uppá og komin glufa á dyrnar jafnvel. Trén eru að laufgast og grasið nálgast sláttuhæð, mánuði á undan miðað við í fyrra.

Danni bróðir var hér í gærkvöldi og við fylgdumst smá stund með nágrönnunum Nínu og Geira. Þau virðast vera orpin, allavega haga þau sér þannig. Við sáum tilþrifin hans Geira vel því í tvígang lét hann til sín taka, annarsvegar við máf sem gerðist of nærgöngull og svo enn eitt þreytandi gæsarkvikindið sem vogaði sér innfyrir landamerkin hans. Það þolir hann ekki og því fer sem fer, skyndileg árás og fiður fær að fjúka því Geiri er fantur, sérstaklega ef pirrandi gæsir eiga í hlut.

Vorið er minn tími og ég verð að viðurkenna að kofinn er farinn að toga í mig fastar og fastar. Fuglasinfónían þar er byrjuð og bara tilhugsunin um að slappa af þar með Erlunni minni togar í mig eins og segull togar í stál. Ég þarf að fara að finna tíma til að skreppa. Samt er það einhvernveginn þannig að ef mikið er að gera þá kostar það ákveðið samviskubit að fara ef verkefnin bíða á meðan. Svona er að vinna hjá sjálfum sér, frídagar verða því svolítill lúxus stundum og oft erfitt að semja við vinnuveitandann um frí. Ég er samt ákveðinn í að gera atlögu að honum og athuga með hvort hægt sé að lofa manni að skreppa í vikunni.
Hann er algjör röndóttur fantur ef það gengur ekki upp.



Engin ummæli: