miðvikudagur, maí 09, 2012

Vorið vann

Eins og veðrið lét leiðinlega við okkur í gær er eins og það sé að biðjast afsökunar á ónæðinu núna því blíðan er með þeim ósköpum að sól skín í heiði og lognið er svo algert að það verður ekki lygnara á tunglinu. Ég dró fánann að húni í morgun, það er við hæfi að flagga fyrir vorinu eftir baráttu gærdagsins. Ég myndi setja gullmedalíu um hálsinn á því ef ég bara vissi hvernig ég færi að því. Fáninn liggur samt slappur niður fánastöngina og hreyfir sig ekki.

Það er samt ekki á vísan að róa með íslenskt veður. Kannski tek ég of djúpt í árinni því eins og ég sagði ykkur í gær var morguninn svona fallegur eins og núna þangað til við sáum eitt og eitt veifandi snjókorn svífa framhjá glugganum. Það kom á óvart og ekki minnkaði undrunin þegar þeim fjölgaði ört í hundslappadrífu sem litaði umhverfið í vetrarbúning, það er vor og liturinn á að vera grænn eins og núna.

Þessi "sunnudagur" okkar verður stóískur letidagur sem er ekki erfitt á svona fallegum vordegi við snark í eldinum. letilegt tikk gömlu klukkunnar okkar og söngfuglasverminn hér á Föðurlandi. Erlan nýtur hvíldarinnar í tætlur og tekur náttfatadag á þetta, það merkir að hún er fullkomlega afslöppuð.Við förum ekki heim fyrr en seinnipartinn og svo tekur atið við í fyrramálið.

Við búum svo vel að hafa nóg að sýsla og erum þakklát fyrir það.

Engin ummæli: