laugardagur, nóvember 15, 2008

Björgun heimilanna

Nú er aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar til bjargar heimilunum kominn fram. Þar er margt góðra hluta sem þessir "aumingjar, ræflar, vitleysingar" o.s.frv. gátu komið sér saman um.
Ég stel þessum fúkyrðum af síðum Morgunblaðsins í gær eftir kynningu á aðgerðaáætluninni.
Ég átti ekki orð yfir yfirlýsingagleðinni hjá borgurum sem blogguðu hver um annan þveran og skreyttu skrifin sín með svo skrautlegum fúkyrðaflaumi að sjaldséð er á prenti.

Ég gat ekki þagað við tölvuna og tautaði "fólk er fífl". Hvað sagðirðu, sagði Erlan mín, fólk er asnar, ætli einhverjir þessara sjálfskipuðu dómara geri sér minnstu grein fyrir þeirri gríðarlegu vinnu sem liggur að baki svona áætlun? Eða þeim fjölda sérfræðinga sem vinna nú hörðum höndum að koma böndum ástandið?
Skildi einhver þeirra gera sér nokkra grein fyrir þeim ógnarskýjum sem hrannast upp þegar öll Evrópuríki leggjast gegn okkur.
Þetta er sennilega fólkið sem hefur lausn á öllum hlutum en er með allt niður um sig sjálft.

Ég verð að segja að eftir því sem fram líður tek ég hærra ofan fyrir þessari ríkisstjórn. Samstarfi sem mér leist ekkert á í byrjun. Það er rekið af tveimur ólíkum sjónarmiðum en hefur tekist að vinna sem einn maður í þessum ólgusjó og afraksturinn er að líta dagsins ljós. Aðgerðaáætlun til styrktar fyrirtækjum í landinu er handan hornsins.

Ingibjörg Sólrún hefur komið mér á óvart, hún virðist mér vera réttur maður á réttum stað...svo detti mér nú allar dauðar lýs.
Bjartsýni mín ríður ekki við einteyming segja sumir. Ég tel bjartsýni mína mun raunsærri en svartsýnin sem grúfir yfir þjóðinni núna og byrgir sýn.
Við erum lítil en sterk þjóð. Smæð okkar mun hjálpa okkur núna. Við erum örhagkerfi og því þurfum við litla innspítingu til að þeyta okkur af stað. Landið ber með sér öll gæðin sem færði okkur þá velsæld sem við bjuggum við, fyrir milljarðabóluna. Þá var kaupmáttur einn sá mesti í heiminum. Íslendingar voru hamingjusamastir allra, það hafði ekki að gera með bóluna. Allt sem þarf til að rétta af skútuna er til staðar. Við höfum landsins gæði, kraft, menntun og þor.

Ég spái að með vorinu verði gruggið farið að setjast til og fólk farið að sjá glætu í myrkrinu. Þetta verður ekki áralöng áþján.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

-Bara einfaldlega sammála....
your sys

Heidar sagði...

Ég skil alveg sjónarhornið þitt frændi og á nokkuð auðvelt með að sjá þetta eins og þú. Og ég er sammála því að á bakvið aðgerðaráætlunina er mikil vinna og að margir hafa lagt við nótt og dag við að ausa skútuna og koma henni í gegnum verstu brimskaflana. Ég verð samt að spara hrósið. Það er þessum sömu stjórnvöldum og þeirra samflokksmönnum sem fengu feit embætti, ekki vegna þess að þeir væru þeir hæfustu, heldur vegna þess að þeir voru í réttum flokki, það er þeim að kenna hvernig komið er. Hvers vegna? Ef þeir hefðu hlustað á þá sem höfðu menntun og vit (t.d. Þorvald Gylfason hagfræðing), þá hefði fyrir margt löngu verið búið að smíða regluverk sem hefði brugðist við ofvexti bankanna. Og ég man ekki til þess að öll þau ár sem XD var við völd, hafi nokkru sinni komið umræða, hvað þá frumvarp, frá stjórnarandstöðunni sem miðaði að því að koma í veg fyrir ofvöxt bankanna. Það er því sama hver flokkurinn er. Og fólk er ekki fífl þó það noti stór lýsingarorð. Fólk er einfaldlega reitt, margir eru að missa aleiguna og skal engan undra þó notuð séu stór lýsingarorð þegar fram koma áætlanir sem breyta litlu sem engu fyrir marga, skiptir þá engu hversu mikil vinna liggur þar að baki. En um leið og ég segi þetta, veit ég að staða stjórnvalda er ekki öfundsverð, það er þó þeim að kenna hvernig komið er, rétt eins og allir sem lifað hafa um efni fram, verða fyrst og fremst að líta í eigin barm.