Þeir voru brattir þremenningarnir sem stofnuðu verktakafyrirtæki í síðustu viku. Þeir eru ákveðnir í að nota sér kreppuna til að hjálpa sér að hlaða sterkan grunn til að byggja ofan á. Ekki vitlaust.
Því hefur oft verið haldið fram að fyrirtæki sem vaxa upp á samdráttarskeiði séu á sterkari stoðum reist en þau sem spretta upp á þenslutímum. Ástæðan er einföld. Kreppufyrirtæki verður að reka vel til að það lifi. Hafa verður fyrir rekstrinum. Það getur verið erfitt að afla viðskiptavina, verð eru lægri á krepputímum og það er erfiðara um fjármagn. Það má því segja að þeim sem tekst að reka fyrirtæki í kreppu muni ganga betur en öðrum þegar betur árar.
Þetta sést svolítið í raunveruleikanum núna. Ótal fyrirtæki spruttu upp í þenslunni. Endalaus eftirspurn var eftir vörum sem fólki var talið trú um að því vantaði. Lítið þurfti að hafa fyrir öflun viðskiptavina og fyrirtækin belgdust út ásamt eigendum sínum sem nánast gátu leikið sér árið um kring og látið aðra um vinnuna. Ekkert mál var að fá fjármagn. Lán eins og hver gat í sig troðið. Lífið var leikur... laxveiðar og lúxus á öllum sviðum. Í dag kemur svo nakinn og andstyggilega kaldur veruleikinn í ljós. Íburðurinn, fríin, laxveiðarnar og flottu bílarnir var tálsýn, undirstaðan var sápukúla. Lánin sem svo auðvelt var að afla eru orðin yfirbygging sem ógerningur er að standa undir.
Ótal fyrirtæki munu rúlla. Fyrirtæki á ýmsum sviðum. Líkt og þremenningarnir sjá, verða tækifæri vítt og breytt um hinn breiða markað viðskiptanna. Fólk sem hefur hugmyndir og þor til að framkvæma þær ætti að skoða núna hvort ekki sé rétti tíminn til að setja sig í stellingar. Ekki bara sjálfs sín vegna heldur þarfnast þjóðfélagið fólks sem horfir yfir vandræðaganginn, fólks sem getur litið framtíðina björtum augum þótt gruggið varni sýn í augnablikinu. Fólks sem sér að þetta ástand varir ekki að eilífu. Fólks sem gerir sér grein fyrir að við höfum séð það svartara sem þjóð en risið teinrétt upp úr því aftur. Og ekki síst fólks sem getur gengið á undan með fordæmi sem sýna að veröldin er góð þótt ekki sé lifað við endalausan lúxus.
Himininn er ekki hruninn ungi litli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli