Já, ég er grasekkjumaður þessa dagana svo ég fór til fjalla um helgina. Ætlaði að ná í nokkrar rjúpur. Þær voru annarsstaðar en ég því ég sá enga þótt gangan væri löng.... og ströng. Við gengum á Tindfjöll. Færið var afar erfitt. Frost að fara úr jörð svo maður sökk í hverju spori. Þetta var samt góð líkamsrækt. Það var gott að slaka á við kamínuna í kofanum eftir erfitt labbið. Rjúpurnar bíða betri tíma.
Ég, eins og aðrir landsmenn hugsaði heilmikið um kreppuna um helgina. Það er erfitt að horfa upp á fólk missa vinnuna sína, fyrirtæki missa verkefni og efnahag flestra bíða hnekki. Saklaust fólk út um allt verður fyrir barðinu á þessum óskapnaði. Verst þykir mér þegar eldra fólk sem hefur nurlað saman sparifé til efri áranna þarf að sjá á eftir því í þessa hýt. Þetta fólk tók lítinn þátt í veislunni, hélt í við sig og lagði fé til hliðar...til mögru áranna. Þetta er köld kveðja til þessa fólks.
Eða skólafólk sem jafnvel þarf að hætta námi því framfærslan dugir ekki lengur.
Við leitum að sökudólgum. Það er eðlilegt. Stærstu ábyrgðina bera fulltrúarnir sem við kusum yfir okkur til að stýra þjóðarskútunni. Þar sitja mennirnir sem áttu að framfylgja reglunum sem við búum við. Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn og ríkisstjórn eru aðilarnir sem þarf að krefja svara, jafnvel frekar en útrásarliðið sem lék sér með fjármagnið, þeir gerðu það í skjóli þessara yfirvalda.
Samt er það síðasta sem mér dettur í hug að bera blak af útrásarliðinu. Mér eins og flestum svíður að verða vitni að öllu sukkinu og svínaríinu. Þeir nýttu sér frjálsræðið langt út fyrir allt siðgæði.
Það er samt enn verra að sjá þá sem áttu að fylgja eftir settum reglum, því reglurnar eru til, sitja áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Þetta er fólkið sem á að sæta ábyrgð, ekki síður en útrásarliðið, að ég tali nú um fólkið í landinu, sem ber ábyrgð sína með því að stefna lóðbeint á hausinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli