föstudagur, nóvember 21, 2008

Frost...!

Það hefur kólnað hratt í atvinnumálum, sérstaklega á byggingamarkaði. Þetta hefur gerst á ótrúlega stuttum tíma. Að keyra um byggingahverfin núna er eins og að keyra um draugaþorp. Á fæstum stöðum eru menn að vinna eins og maður á að venjast. Byggingakranar standa hreyfingarlausir og bera vitni um velmegun sem flaug af landi brott, skyndilega, með engum fyrirvara.
Það er ekki langt síðan ég skrifaði hér á síðuna að Lexor héldi sínum verkefnum og væri á flugi. Það var þá.... Núna er þannig komið að allir sem höfðu samið við mig um verkefni í vetur hafa hætt við.... hver einasti.
Ástandið er ótrúlegt. Ég má samt þakka fyrir stöðu Lexors. Hægt er að lækka flugið án þess að hrapa. Ég hef þegar sent sex menn heim til Póllands, tveir eru áfram. Einörð vestfirsk þrjóska að fjárfesta ekki nema fyrir eigið fé skilar sér núna.

Standandi frammi fyrir verkefnaleysi í vetur, er þá ekki snjallast að nota ástandið og skella sér í mastersnám í lagadeild?
Ég hef þegar tekið þá frómu ákvörðun. Eftir vangaveltur undanfarna daga tókum við hjónin sameiginlega ákvörðun um þetta í gærkvöldi. Ég er búinn að hafa samband við skólann og þær dyr standa opnar.
Svo, það er þeytivindan aftur, enda komið ágætis hlé. Gráu sellurnar eru svolítið kvíðnar, en það rjátlast af þeim. Þarf bara að koma þeim aðeins í form aftur.
Er núna að skoða valmöguleika annarinnar framundan. Sumt hentar betur en annað, en þannig er bara lífið.
Tvö ár verða búin áður en við vitum af, rétt eins og kreppan :-)

4 ummæli:

Íris sagði...

Mér líst svooooo vel á þig pabbi!! Hlakka til að vera með þér í fögum og takast á við masterinn ;)

Rosalega flott hjá þér og þessi 2 ár verða sannarlega fljót að líða :)

Nafnlaus sagði...

Vestfirska þrjóskan er gæðastimpill!

Ég segi nú bara eins og yndisleg eiginkona mín, mér líst vel á það að þú skulir sjá það tækifæri núna, í þessum ævintýralegum tímum, að drífa þig í masternámið. Ég held það verði þér mikil verðmæti.

Já, og 2 ár eru svosem ekkert voðalega lengi að líða... :)

Sjáumst, Karlott

Hafrún Ósk sagði...

Ég vil nú bara segja gangi þér vel í skólanum kæri frændi :)
Svaka góð ákvörðun sem mun örugglega skila þér fullt :)

Unknown sagði...

Nú erum við að tala saman kæri mágur. Ég held að þú rúllir þessu upp gamli,og sellurnar eru fljótar að taka við sér, um leið og verkefnin streyma að þeim. Það er nú ekki heldur eins og þær hafi verið alveg atvinnulausar undanfarið ....eða hvað.
Gangi þér vel og Guð geymi þig.

Baráttukveðja frá Herragarðinum