sunnudagur, mars 23, 2008

Gröfin... tóm!

Ef hún hefði ekki verið tóm þennan morgun, væri engin kristni! Svo þýðingarmikið var þetta atriði.
Milljónir manna um allan heim hafa fundið og kynnst því í eigin lífi hversu lifandi Kristur er.
Það eru líka margir sem eyða ómældum tíma og orku í að reyna að sannfæra aðra um að hann sé það alls ekki, heldur bábylja. Gamall maður stendur gjarnan á horni Holtavegar og Langholtsvegar með mótmælaspjald með níði um Krist og hvatningu til að brenna kirkjur. Svipur hans er harður af áralangri vanlíðan. Hann hefur stundað þessa iðju til margra ára. Hvað ætli reki hann áfram?
Ég vorkenni honum alltaf. Lítið rykkorn að afneita skapara sínum.
Grein gamla biskupsins Sigurbjörns Einarssonar í mogganum um daginn var góð þar sem hann kallaði þessa menn jafn einlæga trúmenn og kristna. Þeir haldi fram kenningum sínum sem í engu eru vísindalega rökréttari eða hafa verið sannaðar nokkuð frekar en kristnin. Sigurbjörn er djúpvitur maður.

Í dag er formleg opnun hvítasunnukirkjunnar Mózaik. Við Erla höfum ákveðið að fá far með henni og sjá hvort hún stefnir ekki sömu leið og við erum að róa.
Ég óska aðstandendum kirkjunnar til hamingju með þetta skref og bið þess eins að hún fái að vaxa og eflast. Hef reyndar á tilfinningunni að hún verði stefni hvítasunnu- hreyfingarinnar þegar fram í sækir, því það þarf ísbrjót til að ryðja þá braut sem þarf að fara. Seglskútur eru aðallega til sýnis.

Við vorum í höfuðborginni í gær. Afmæli tengdaforeldra minna var ástæðan. Eftir afmælið var okkur boðið í hús Eyglóar og Bjössa. Þegar þangað var komið bættust við hinar dætur okkar líka. Okkur var skipað að hafa augu lokuð og þannig sátum við undir óvæntri ræðu þeirra systra. Ræðan var til okkar í tilefni 30 ára brúðkaupsafmælisins um daginn. Ræðan var kannski "volvo" afturábak en hún hitti hjartarætur.
Risafíll með kálf, skorið út úr harðvið, var okkur fært að gjöf í tilefni dagsins, ásamt páskaeggjum. Mitt heimagert, gamaldags og flott, Erlu sælkeraegg frá Hafliða. Nákvæmlega það sem okkur langaði mest. Það fylgdi orðum ræðunnar að fíllinn væri táknræn gjöf til okkar því fíllinn er trygglyndastur fjölskyldu sinni allra dýra .
Ánægjulegt, notalegt og hjartahlýjandi, orð ræðunnar ekki síst. Við erum rík. Takk elsku gullin mín.
Læt hér fylgja mynd af fílnum og eggjunum að gamni.

Gleðilega páska.....

2 ummæli:

ArnaE sagði...

Verði þér að fílnum og páskaegginu elsku pabbi minn:) og ræðan var sko ekki "volvo" afturábak. Það tók mig langan tíma að fatta hvað þú meintir. Þið mamma eruð svo óendanlega sæt saman. Takk fyrir mig í gær og hinn og hinn og hinn og hinn..... Hehehehe, Guð blessi þig milljóngrilljónfalt, Arnan

Nafnlaus sagði...

Þetta er ekki ónýtur afrakstur þriggja áratuga.

Margir ganga lengra í árum og ef svo ótrúlega vildi til að þeir fengju aðra eins ræðu og ég veit að þið hafið fengið þá væri hún ýkt, login og ekki meint.

Þannig er ekki með þessi orð. Uppskeran er ljúf þegar vel hefur verið til sáð. Þið verið vist bara að sætta ykkur við það.

Innilega til hamingju með áfangann og góða ferð til útlandanna.

bestu kveðjur

Kiddi Klettur