Lífið gengur sinn vanagang hér í sveitinni. Við njótum lífsins gæða hér í faðmi náttúrunnar ef svo má segja. Náttúran hér er svo síbreytileg og falleg, hér er gott að vera. Flestir dagar eru teknir snemma. Setið saman í klukkutíma áður en lagt er af stað til vinnu, blöðin lesin og spjallað um lífsins gang. Þetta eru morgunstundir sem ég met mikils og vildi ekki vera án. Hér er ég auðvitað að tala um virka daga. Helgardagar eru öðruvísi. Þá sit ég einn með sjálfum mér hér niðri og les blöðin, ræð eins og eina krossgátu eða fletti bloggsíðum og skoða hvað fólk leggur þar á borð. Erlan og dæturnar eru ekkert að rífa sig upp snemma um helgar. Það er enda allt í lagi, helgarnar eru jú hvíldartími og afslöppunar.
Nú er fallegt veður og sólin skín með vorlegri sólbráð. Ég finn fyrir vorfílingi þegar veðrið sýnir á sér þessar ljúfu hliðar enda komið fram í mars. Sveitamaðurinn í mér bregst við með tilhlökkun að sjá vorlitina og finna ilminn af nýgresi og brumandi trjásprotum.
Vinir okkar Barbro og Siggi komu hingað til okkar í dag. Þau eru aufúsugestir hér enda spannar vinátta okkar hjónanna 32 ár. Að vanda var mikið spjallað og nú sérstaklega um mótorhjól, þ.e. kallarnir. Siggi er stórtækur í hjólamálum. Tíu stykki mótorhjól og ekkert minna. Hann er að fara í þriggja vikna hjólaferð um Evrópu með dætrunum sínum tveimur. Svo síðar í sumar til Ameríku í aðra hjólaferð, nóg að gera hjá þeim.
Við skruppum í vikunni á samkomu hjá nýrri kirkju sem nefnist Mózaik hvítasunnukirkja. Jú rétt, þetta er hvítasunnukirkja.....! Kemur mér mest á óvart.
Hélt af gamalli reynslu að sjálfhverfa hennar leyfði ekki svona vaxtarsprota.
En gott, ég get ekki annað en fagnað.
Þetta reyndist hin notalegasta stund. Það fór minna fyrir “sóking” eða “Toronto” áherslum sem ég átti alveg eins von á að yrði, var ánægður með það.
Bið þessu nýja starfi Guðs blessunar.
Á morgun ætlum við að skreppa bæjarferð og kíkja á bókamarkaðinn í Perlunni. Höfum farið nokkrum sinnum áður og keypt okkur nokkrar bækur í hvert sinn. Það er hægt að gera góð bókarkaup þarna ef að líkum lætur.
Munum svo kíkja eitthvað í vina- og fjölskylduvitjanir. Ef einhverjum bregður við þá frétt, er eina ráðið....
....að vera ekki heima þegar við birtumst.
1 ummæli:
Gott að þér líkaði vel þarna í Mózaik um daginn:) Mér finnst þetta svo notalegar samkomur:) Vona að þið mamma kíkið fljótlega aftur;) Skemmtið ykkur svo í dag að fara á bókamarkaðinn og í heimsóknir:) Love you, Arnan
Skrifa ummæli