sunnudagur, mars 16, 2008

La Traviata

Ég er enn orðlaus. Þvílíkt listaverk...! Ég sat undir þessu verki í gærkvöldi ásamt minni heittelskuðu og "youngsternum" eins og hún kallar sig stundum. Með gæsahúð sátum við þarna opinmynnt og orðlaus.
Það verð ég að segja að ég hef aldrei áður farið á nokkra sýningu, óperu eða annað, jafnflott.
Ekki bara söngurinn sem var snilld, heldur allt, leikurinn, umgjörðin og krafturinn framkallaði ótrúlega sterkar tilfinningar. Þetta er sannkölluð list. Veisla fyrir andann og sálina.
Hrund sagði eftir sýninguna að hún vildi miklu heldur sleppa fimm bíóferðum til að komast eina svona í staðinn. Gæti ekki verið meira sammála henni.
Þetta var sannkölluð veisla sem við hefðum getað misst af ef Erlan mín hefði ekki ýtt passlega á mig með þeim orðum að þetta væri einstakt tækifæri .....það voru orð að sönnu

Siggi stormur spáði “bongóblíðu” um helgina. Honum hefur ratast rétt á munn í þetta skiptið. Veðrið gælir við okkur núna, það er af sem áður var. Það er gott, þetta felur í sér fögur fyrirheit um græna tíð.

Við ætlum til borgarinnar í dag. Tvær fermingar eru fyrirhugaðar, ein í hvorri fjölskyldu, á sama klukkutímanum. Við vildum mæta í þær báðar svo ekki var um annað að ræða en að skipta liði. Ég fer í fermingu Sóllilju Guðmundsdóttur frænku minnar, barnabarn Hansa bróður og Erla fer í fermingu frænda síns Sigurðar Benónýs Sigurðssonar bróðursonar tengdapabba.
Óska þessum ættingjum okkar hér með til hamingju með daginn og gæfu til að hafa boðskap fermingarinnar með sér í farteski sínu á vit framtíðarinnar

Þessi helgi verður því ferðasöm. Það er ekkert að því, okkur hefur sjaldan leiðst flækingurinn.

Erlan vöknuð og tími á gæðakaffibolla, þið vitið........ fyrsti bollinn!

Engin ummæli: