sunnudagur, febrúar 24, 2008

Of heimakær....

...hafa stelpurnar verið að hamra í okkur undanfarið. Við höfum varist með því að vísa í að maður sæki í það sem manni finnst best, og þannig er það auðvitað. Hinsvegar má alltaf taka við svona athugasemdum og gaumgæfa þær. Við sem sagt ákváðum eftir nánari skoðun, að þó okkur þyki gott að dvelja hér við ána, þá mætti hugsanlega gera meira af því að sækja fólk heim.
Helgin einkenndist því af ferðagleði. Við fórum í gær í heimsókn til Sirrýar og Guðjóns og hundanna þeirra, eftir ferð í Húsasmiðjuna. Áttum þar góða stund með þeim heiðurshjónum. Í eftirmiðdaginn fórum við svo til höfuðborgarinnar. Tilefnið var þorrablót, síðbúið, til fólksins hennar Erlu. Það var ljúf kvöldstund og maturinn góður. Vorum komin heim fyrir miðnættið. Eftir að hafa sofið vel út við notalegan árniðinn hér komu þrjár dætranna hingað austur til okkar. Við höfðum ákveðið að skreppa í kofann öll saman og kíkja svo kannski í heimsókn í Kotið í leiðinni.
Það endaði þannig að við Erla skruppum í heimsóknina en stelpurnar voru í kofanum og spiluðu á meðan.
Núna erum við HEIMA sem okkur þykir allajafna best. Það viðurkennist þó að helgin hefur verið sérlega ánægjuleg og skemmtileg.
Það hefur hert frostið eftir því sem á daginn hefur liðið. Núna er það komið niður í tíu gráður. Það rýkur af ánni frostþokan og dulúð sveipar umhverfið.
Þetta er sjarmerandi og fallegt á sinn hátt. Við sáum þetta á leiðinni að austan áðan að árnar ruku. Það sagði okkur að frostið væri orðið mikið.
Inni er auðvitað heitt og notalegt og ekki minnsta ástæða til annars en að láta eftir okkur að líða vel – til þess eru svona hreiður.
Er nema von að við séum heimakær?

1 ummæli:

Eygló sagði...

Nei það er ekki nema von, það er einstaklega notalegt að koma til ykkar og alltaf jafn gaman :) Það var líka svakalega skemmtilegt að koma með ykkur austur í gær og vera í kofanum sem er líka, kemur á óvart (ekki), svoo notalegur og kósý :) Og svo sáum við systurnar norðurljós á leiðinni heim frá Selfossi og það er alltaf svooo fallegt :) Njótið lífsins :) Þín Eygló