sunnudagur, febrúar 03, 2008

Eldhúshljóð...

... berst til mín. Hún er að brjóta egg heyrist mér, glamur í skálum og pottum, þrusk í bréfa- eða plast pakkningum, vatn að renna úr krana. Eitthvað á að hræra, hrærivélin komin í gang, ég heyri að það er kveikt á ofninum, glamur í ofnskúffum þegar þær eru teknar út úr honum. Allskonar eldhúshljóð, eitthvað gott í vændum.
Hún er gædd óvenjulegum hæfileikum. Gerir marga hluti í einu. Hún er að baka bollur.... og gera karamellukrem ofaná, alvöru karamellukrem eins og hún setur ofan á tertur... og rjómi á milli.
Ekki laust við tilhlökkun. Þetta eru engar venjulegar bakarís bollur, ó nei gæðin allt önnur og miklu betri.
Þetta hefur hún gert öll árin okkar. Ég kann þetta ekki. Kremið er nýlunda. Ég held að þetta verði tærasta snilld ef ég þekki hana rétt.
Nú er frostið búið, nánast. Veðrið fallegt og fuglarnir að næra sig á korninu sem við hendum til þeirra á morgnana. Hef grun um að þeir séu farnir að æfa söngvana sína fyrir vorið en þeir launa fyrir sig með söng, litlu skinnin.
Þetta er einn af þessum góðu dögum....

Verð að bæta aðeins við þar sem ég er búinn að smakka bollurnar, þær voru ........SNILLD eins og ég hafði grun um. Þið verðið að prófa svona krem með bollunum.... set uppskriftina á sælkerasíðuna, ef hún gefur hana upp.

Ég rakst á eftirfarandi auglýsingu: Hvernig á að fara með eiginkonunni í búðir.... ....slökunaræfingar, hugleiðsla og öndunartækni. Uppl í síma......

Engin ummæli: