Hann var fúll í morgun og kom með látum í veg fyrir að við heimsæktum höfuðborgina í dag. Það er búið að vera ófært yfir Hellisheiði og um Þrengsli í allan dag. Hér hefur gengið á með hvössum éljum og kafsnjó. Mínir menn voru samt að vinna þó veðrið hafi víst ekkert verið skárra í bænum.
Að vera veðurtepptur hér er samt ekkert hræðilegt ef maður er ekki í þeirri stöðu að verða að mæta eða það hafi aðrar verri afleiðingar. Það er nú einu sinni þannig að fátt er betra en heimilið. Notalegheitin eru síst minni þó það sé Kári sem ákveður að maður verði heima, jafnvel meiri.
Erlan var ekkert súr yfir að vera veðurteppt í dag. Vask-dagurinn liðinn og minna að gera á bókhaldsstofunni. Hún dæsti af vellíðan í límsófasettinu í stofunni í morgun og sagðist “elska þetta”. Það er gott að heyra hvað heimilið er henni mikið hreiður, enda varla hægt annað hér á þessum stað.
Hrundin mín var stressuð í morgun því hún átti að flytja fyrirlestur í skólanum í dag með nokkrum samnemendum. Það reddaðist þó með hjálp kennarans sem frestaði fyrirlestrinum fyrir hana. Það er mikið að gera hjá henni í skólanum núna, full vinna. Hún stendur sig vel í þessu ati.
Við erum búin að fylgjast með litlu vinum okkar hér fyrir utan gluggann í allan dag. Þeir virðast hafa kallað á vini sína því þeim fjölgar einkennilega hratt. Þeir fengu þrisvar sinnum í dag og virtust hinir ánægðustu með það, allt klárað. Smyrill flaug hér yfir í morgun svo kannski eru þeir líka farnir að líta á mig sem blessun......
Erfitt að ráða við það, en þeir verða víst líka að éta til að lifa. Eins dauði er annars brauð.... eða kjöt.
Ég ætti kannski að vekja Erluna en hún lagði sig, enda farið snemma á fætur, rétt fyrir kl. 6.
Er að hugsa um að brasa eitthvað í Tortillas rétt. Fljótlegt og gott.
Er að lesa bók sem inniheldur fleyg orð og tilvitnanir. Rakst þar á eftirfarandi gullmola sem verður lokaorð þessa pistils: “Þú hefur náð fullum þroska þegar þú getur haft rétt fyrir þér án þess að þurfa endilaga að sannfæra aðra um það”.
Hafið það gott vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli