sunnudagur, febrúar 28, 2010

Enn hristist

Jörð skelfur í Chile. Var að kíkja á fréttir á veraldarvefnum. Það varð sem betur fer nánast ekkert úr þessari flóðbylgju sem beðið var eftir. Það var eins gott, hún hefði getað drepið mun fleiri en skjálftinn sjálfur.
Skjálftinn í Chile var um 900 sinnum sterkari en skjálftinn á Haiti um daginn. Þarna kemur í ljós gildi þess að byggja sterk hús. Í Chile eru hús jarðskjálftahönnuð eins og hér á landi. Chile er víst eitt mesta jarðskjálftaland í heiminum, miklu verra en hér.

Ég horfi út um gluggann minn á Eyjafjallajökul sem kúrir þarna í fjarska. Þar er eitthvað að gerast. Kvikuinnskot er þar í gangi sem þýðir ekki endilega gos en allt eins. Landið lyftist og skríður til. Það hafa mælst nokkrir millimetrar á viku undanfarið sem er mjög mikið.
Það er ekki von á miklum hamförum ef Eyjafjallajökull gýs en..... hann hefur oft vakið Kötlu af sínum væra svefni ef hann hefur farið af stað og hún á til að fara hamförum. Jarðvísindamenn tala um að gos í Eyjafjallajökli taki í gikkinn á Kötlu. Spennandi að fylgjast með.

Við fórum í leikhús í gærkvöldi. Það er alltaf gaman. Við sáum Fjölskylduna, drama um allskyns fjölskylduleyndarmál og endalausar uppákomur. Flott verk.
Í dag ætlum við enn að bregða undir okkur betri fætinum og skreppa í bæinn. Eygló og Arna halda upp á 29 ára afmælið þeirra saman.
Hlakka til að hitta fólkið mitt.
Njótið dagsins vinir.

Engin ummæli: