Ég las hreint ágæta grein á visir.is eftir Önnu Margréti Björnsson um aðþrengdar eiginkonur. Greinina má nálgast -hér -
Þar sem ég tilheyri þeim hverfandi hópi íslenskra karlmanna sem láta tískustrauma lönd og leið hef ég látið afskiptalausa daga eins og konudaginn og þetta nýja fyrirbæri valentínusardaginn.
Þessir dagar sem eru einungis til vegna markaðssetningar fyrirtækjaeigenda sem vilja selja vörurnar sínar hafa gert að verkum að karlar "eiga" að sanna ást sína á konunni sinni með því að versla það sem til er ætlast á þessum dögum. Verð þó að játa að ég dáist að markaðssetningunni sem slíkri. Ég gef hinsvegar lítið fyrir gildi þessara daga fyrir ástina - hún verður aldrei markaðssett svona.
Það stendur eðli mínu nær að gera alla daga að konudegi. Konur eru það yndislegasta sem til er og eiga allt dekur karlsins skilið. Konur eru hornsteinar hvers þjóðfélags með móðurhlutverkið í fararbroddi. Það er í eðli kvenna að gjalda líku líkt. Það ættu fleiri karlar að gera sér grein fyrir að um leið og þeir eru góðir við konuna sína og dekra hana eru þeir komnir í bullandi samkeppni við hana. Hún mun alltaf gjalda líku líkt og einu skrefi lengra.
Íslenskir karlmenn ættu að hafa þor til að hætta að hlaupa eftir amerískum mýtum og sýna og sanna ást sína með einhverju öðru en að fljóta með tískustraumum.
Ég er sammála Önnu Margréti - þessir valentínusar og konudagskarlar eru metró.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli