Blessaðar kýrnar. Ætli þeim leiðist ekki stundum á básnum sínum og finnist þær séu alltaf að spóla í sama farinu. Ég man hvað þær voru glaðar að komast út á vorin. Þær voru greyin búnar að vera bundnar á bás sínum veturlangt. Þær vissu ekki hvernig þær áttu að láta. Þær skoppuðu um og ýttu hver við annarri, hlupu um með halann hátt á lofti og kunnu varla fótum sínum forráð. Það var alltaf jafn gaman að fylgjast með þeim. Gleði þessara málleysingja var svo fölskvalaus, þær voru ekki vitlausari en svo að þær kunnu að gleðjast yfir frelsinu.
Það eru fleiri bundnir á bás en kýrnar og það lengur en veturlangt. Margt mannfólkið lætur of auðveldlega teyma sig á bás og er þar svo bundið árum saman. Venjubundið líf á bás sem getur verið erfitt að losa sig frá.
Báslífið er samt auðvelt, það einkennist af mötun, lítið annað að gera en jórtra það sem ofan í magann er látið.
Sumum finnst gott að láta mata sig. Það þarf þá ekki að takast á við áleitnar spurningar sem óhjákvæmilega vakna þegar lífið í sínum fjölbreytileika tekur á sig myndir sem passa ekki við ritúalið. Þá er þægilegt að jórtra bara tugguna sína. Ef gagnrýnin hugsun er einhverntíman til gagns er það á slíkum stundum.
Það er hverjum manni hollt að slíta af sér fjötrana sem hlekkja hugarfarið. Fólk verður að leyfa sér að vera gagnrýnið á það sem mætir því hverju sinni. Afleiðing þeirrar gagnrýni getur orðið slit á því sem bindur það við básinn. Að losna af básnum og geta hlaupið út í iðjagrænt lífið veldur sömu gleði og kúnna á vorin, sem kunna sér ekki læti og sletta úr klaufunum, þegar þær fatta að básinn er ekkert líf.
Frelsið er nefnilega ekki á básnum, hann er ánauð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli