Mikinn heiður á hún skilið, Perlan mín. Í heil 28 ár hefur hún mátt þola mig.
Það hét Litlaholt, holtið fyrir norðan bæinn, þar sem sagan hófst. Holtið var reyndar ekki svipur hjá sjón þegar þetta gerðist, miðað við fyrri daga, þegar það var alvöru holt og lækurinn rann í gilinu austan við það. Tilvalinn staður fyrir laghenta menn að stífla fyrir og gera sundlaug. Það gerði víst afi minn heitinn, byggði sundlaug. Þar lærði pabbi minn og bræður hans að synda, í köldu vatninu.
Það var ágústmánuður árið 1976, á Kotmóti. Þá var Litlaholt orðin ávöl hæð vestan við steypiríið hans Grétars, búið að ýta því út og gera tún. Við höfðum verið á gangi lengi og talað saman um allt og ekkert undir seytlandi hljóði lækjarins sem ég þekkti svo vel. Hún vissi ekkert um tilfinningar sveitapiltsins við hliðina á sér. Vissi ekki að ég hafði dáðst að henni lengi, í laumi.
Hún hafði því heldur enga hugmynd um hver sú örlagastund var, þegar hún smeygði hönd sinni í mína þarna á Litlaholti, og hjarta sveitapiltsins sprakk í tætlur. Viðkvæmur og ástfanginn drakk ég í mig hvert orð sem hún sagði, mér fannst eins og heimurinn lægi við fætur mína og ég gæti sigrað hann með því einu að veifa litla putta. Það teygðist á göngutúrnum, hann endaði síðla kvölds í hlöðunni heima þar sem sest var niður í ilmandi glænýju heyi. Spjallið entist fram undir morgun.
Hún vissi ekki þá að þetta voru fyrstu orð sögunnar okkar saman. Saga sem telur orðið þrjátíu ár. Ég var ástfanginn ungur maður, ölvaður af þessari reykjavíkurmær sem fangaði hjarta mitt á þennan ógleymanlega hátt.
Þetta er lengsta ölvunarástand mitt, alveg klárlega, því það endist enn. Munurinn er samt sá að í dag er ég ekki bara ástfanginn heldur hefur reynsla áranna, misjöfn eins og gengur, fært mér sanninn um að þessi örlagastund færði mér þarna betri gjöf en ég nokkurntíman var verðugur að eignast.
Minningin er góð og yljar mér.
Ég vona af heilum hug að við fáum að ganga saman inn í sólarlagið - þar sem sólin okkar sest.
7 ummæli:
Vá hvað þetta var falleg frásögn!! Veit vel að þú varst sko heppinn að eignast hana mömmu en veit líka að hún var heppin að eignast þig!!
Þið eruð alveg frábær bæði tvö! Algjörar fyrirmyndir mínar!!
Vá sko nú runnu þónokkur tár.... Ég hef sko bara ALDREI heyrt hvernig ykkar saga byrjaði og mikið finnst mér hún falleg. Vá segi ég nú bara... Mig vantar nú bara vasaklút og fötu;);) En þið eruð svo æðisleg þið mamma og alltaf jafn sæt og góð saman. Sjáumst eftir helgina... Arna sem er ennþá í sveitasælunni...
Í tugina þrjá eina vantar
aðeins litla ára tvennu
Þar Erla systir ennþá skartar
sannarlega góðri þrennu.
Hvergi versla má það tríó
sem bros og þokki sýna best
En Erla systir er alveg bíó
er hlið síns kæra grobbin sest.
Að skarta brosi er langt að sést
er fyrsti hluti nefndrar þrennu
Kannski er allra allra best
að létta af hér þungri spennu.
Ljóstra vil ég upp um það
hvað tel ég aðra hluti þrennu
Enginn má það telja mas
er minnist ég á hennar nennu.
En annar hluti og þriðji svo
næstir nefndir verða á nafn
Hún kann af manni sínum þvo
og gefa honum stelpusafn.
Drottinn blessi ykkur bæði
þessi biður ykkar eina von
Ég von'þið gömul verðið í næði
kannski með eins og einn dótturson.
Kveðja
Kiddi Klettur
Takk fyrir þetta!!!
Inn kemur kátur á síðu mína
Kletturinn með stöku fína.
Hann lífgar upp á litrófið
Og leikur sér við stafrófið
gaman að því.
Rosalega er þetta flott ljóð hjá þér Kiddi!!!
Það er þvílíkt bókmenntakonfekt að lesa þessi skrif minn kæri, og ekki skemmir nú fyrir skáldskapur Klettsins einstaka.
Ég hef sagt það áður og segi aftur: Þú ert ríkur maður Erlilng og er vel af því kominn!
Til hamingju með Perluna þína sem ég veit að þú passar sem sjáldur augna þinna...enda er hún mikið augnakonfekt.
Þú ert ríkur maður, það er satt...en við hin erum ekki síður rík sem fáum notið vináttu ykkar hjóna.
Guð blessi ykkur allt til sólseturs...
Sirrý litla
Skrifa ummæli