Veðrið er fallegt, austurhimininn glitrar af morgunlitum glitskýjum sem framkalla gullinbleika birtu sem ekki sést oft. Hekla er umvafin skýjahulu eins og eldfjalla er siður en er samt eitthvað svo tignarleg, því ég veit af henni þarna. Áin liðast í rólegheitum hér framhjá húsinu við ána og speglar þessa fallegu morgungeisla. Það er ekkert sem ýfir skap hennar núna, bara sumarleg, svo róleg að það er næstum því hægt að fara niður að henni og klappa henni.
Það er víst komið að því að maður verður að hætta að berja hausnum við steininn og viðurkenna að það er farið að hausta, kannski jafnvel fyrir einhverju síðan. Laufin eru fallin og íslenska flóran lögst í vetrarsvefn. Alltaf er samt nóg til að hafa væntingar til, það styttist í að dagana lengi aftur, jólin eru handan hornsins með litadýrð og gleði, áramót og snjór sem lýsir upp skammdegið.
Frúin á bænum er frammi í eldhúsi að hafa til morgunverð. Hún skrapp í bakaríið. Sennilega vegna þess að húsbóndinn sem séð hefur um þann þátt í gegnum árin hefur ekki sinnt því starfi sínu sem skildi undanfarið. Ég neita því ekki að það er notalegt að heyra stússið frammi og finna lyktina af nýbökuðu bakkelsi. Eru þetta ekki lífsgæði?
Hún ætlaði að skreppa í einhverja búð í leiðinni en sú var ekki opin, opnar ekki fyrr en klukkan ellefu....ekkert stress í sveitinni, svo hún ætlar bara að skjótast aftur á eftir, enda ekki nema fimm mínútna skrepp.
Við erum gjarnan spurð hvort okkur líki jafn vel að búa hérna í húsinu við ána eins og til að byrja með. Svarið er nei......
Við erum miklu nær því að líka betur og betur við staðinn eftir því sem tíminn líður. Andrúmið hér einkennist af friðsemd og stressleysi og umhverfið fallegt svo af ber.
Að keyra til höfuðborgarinnar hefur reynst lítið mál. Umferðin rennur á níutíu kílómetra hraða alla leið, enginn að taka framúr öðrum á þessum tíma og lítið fyrir akstrinum haft. Þetta er því góður tími til íhugunar, fara yfir daginn og taka ákvarðanir. Ég held jafnvel að ég myndi sakna þessa rólegheitatíma ef það breyttist. Við förum oftast á einum bíl á milli og ekki leiðist okkur samfélagið við hvort annað og Hrund sem oftast kemur með, svo þetta er gæðatími.
Ég er að fara að lita.... já tvisvar verður gamall maður barn. Ég hef litað hár konunnar minnar í mörg ár. Þetta var gert í sparnaðarskyni á sínum tíma og reyndar enn. Það er óforbetranlega dýrt að kaupa slíka þjónustu á stofu. Liturinn kostar fimm hundruð krónur skammturinn (keyptur í útlöndum) svo munurinn er ca. 9.500 í hvert skipti, ca mánaðarlega. Já molarnir eru líka brauð, en það má eiginlega frekar segja að þetta sé brauðhleyfur en moli.....
Við ætlum að bregða undir okkur betri fætinum síðar í dag og skreppa til Reykjavíkur í fertugsafmæli. Teddi mágur minn fyllir fjórða tuginn í desember nk en heldur uppá það í dag. Til hamingju með það Teddi minn. Teddi er tryggingaráðgjafi af lífi og sál. Mikill sölumaður í sér sem gerir að verkum að hann getur verið svo sannfærandi að honum tekst jafnvel að selja sjálfum sér hugmyndir sem honum annars dytti ekki í hug að kaupa....! Honum gengur vel í þessu starfi sínu og væri fengur fyrir hvern þann sem þarf að koma vöru sinni á framfæri að njóta krafta hans við það.
Núna er Erlan sest ínn í stofu með kaffibolla, ég er búinn að lita en liturinn þarf að verka í ca hálftíma. Hún togar í mig fastar en tölvan svo ég læt staðar numið hér og bið ykkur vel að lifa og njóta.
2 ummæli:
Æðislegt hvað ykkur líður vel í húsinu við ána. Alveg frábært, svo er alltaf svo notalegt að kíkja til ykkar í sunnudagskaffi. Reyndar orðið aðeins of langt síðan síðast. Verðum að fara að bæta úr því :)
Hafið það rosa gott og ég hlakka til að hitta ykkur bæði. Þið eruð einfaldlega frábær :) Ég hefði ekki getað fengið betri foreldra!
Þín Íris
-Ég held bara að við séum á sömu bylgjulengdinni elsku litli bróðir, með lífsgæðin....
Imurinn af bakkelsinu þínu -heima, og pönnukökunum minum, -líka heima, hljómar ansi líkt.....
Gott að lesa um að þið njótið lífsins á árbökkunum, heima og að heiman:)
Mbkv sys
Skrifa ummæli