sunnudagur, nóvember 18, 2007

“Kveður kuldaljóð, Kári í jötunmóð...”

Hugsaði um þennan kvæðisstúf í gær gangandi um Tindfjallasvæðið í öskrandi norðanroki, "...næðir kuldaél yfir móa og mel, myrkt sem hel". Gekk til rjúpna í gær ásamt Hlyn. Við tókum stefnu til fjalla í góðu veðri. Ísland er land öfganna, ekki bara í mannfólkinu heldur veðrinu líka. Þegar leið á daginn fór að hvessa..... og hvessa meira....og meira. Það endaði með að varla var stætt fyrir fullorðna karlmenn. Vindurinn kom æðandi ískaldur ofan af jökli með snjófjúki og þvílíkum gassagangi að við munum varla dæmi um annað eins og gerði sitt ítrasta til að henda okkur um koll í bröttum hlíðum Tindfjalla.
Þarna voru mjög rjúpnaleg svæði að okkar mati. Rjúpurnar virtust samt ekki vera á sama máli því ekki voru þær mikið að flækjast fyrir löppunum á okkur. Það var ekki fyrr en á niðurleið í veðurofsanum sem við veiddum nokkrar rjúpur, fimm á mann.
Eins og flestum lesendum mínum er kunnugt er ég matmaður og sælkeri svo ég hlakka til að matreiða þær. En rjúpan er mikill sælkeramatur eins og flest villibráð.

Ég gleymdi myndavélinni góðu heima, kannski eins gott, slík gæðavél fer kannski ekki vel á því að velkjast með í svaðilför eins og þessari. Ég tók hinsvegar myndir á símann minn en hann er með fimm milljón pixla gæði sem er ekki svo slæmt í síma.




Myndirnar eru kaldar eins og von er. Ég setti tvær inn á myndasíðuna mína, og svo þessi sýnishorn hér á síðuna að gamni, þó ekki sömu og á myndasíðunni.






"Einbúinn" í húsinu við ána... kveður að sinni.

4 ummæli:

Íris sagði...

Heh, það hlaut að vera að þú værir einhversstaðar í óbyggðum þar sem þú svaraðir hvorki í gemsann né heimasímann. Misstir af ísboði með heitri rjóma-mars-íssósu ;)
En það verður þá bara seinna ;)
Vonandi ertu að spjara þig svona frúarlaus :) Hlakka til að kíkja næst í húsið við ána. Og mikið rosalega eru þetta flottar myndir hjá þér!! Alveg frábærar.
Sjáumst
Þín elsta dóttir Íris

Erling.... sagði...

Alltaf er maður að missa af einhverju....Uppáhaldssósan mín.
Þetta var fínasta fjallganga og ágætis veiði. Ég geng auðvitað haltur þar sem annan helminginn vantar...en þetta hefst allt!

Takk fyrir, ég er nokkuð ánægður með margar myndanna..
kv P

Nafnlaus sagði...

5 rjúpur - Glæsilegt!
Þó kunnáttan á þvotta- og uppvöskunarvélar sé af skornum skammti eru veiðigenin ógnarlega beitt!
Ísland er svo sannarlega land svakaleikans og náttúran er stórfengleg!

Kannski maður fái að bíta í rjúpu einn kaldan vetrardag.

Hafnfirskar kveðjur,
Karlott

Eygló sagði...

Þessar myndir eru alveg magnaðar! Stráin alveg frosin og klakarnir umvefja þau eins og sæng! Brrrr... Og teknar á síma að auki, það er ótrúlegt :) Svo fer nú að styttast í að þvottavélameistarinn snúi aftur svo að þetta fer að taka endi :) Hehe - fannst bloggið þitt á undan þessu algjör snilld! En hafðu það gott og við sjáumst hress næst :) Þín næstelsta dóttir Eygló ;)