laugardagur, nóvember 24, 2007

"Hafa skal það...

...er sannara reynist". Ég hef áður tjáð mig um "sóking" hér á síðunni við mismikla hrifningu þeirra sem rata hér inn. Ég get ekki sagt að skoðun mín síðan þá hafi tekið stórstígum breytingum, og þó. Ég er enn á þeirri skoðun að auðveldlega megi finna ýmislegt til foráttu í þessu, sérstaklega látbragð og leikaraskap. En ég er heldur ekki svo steinrunninn að ég geti ekki séð góða hluti í þessu líka. Þar liggur kannski mergurinn málsins, stendur ekki: “Prófið allt, haldið því sem gott er....”

Tómas (ég) hinn gagnrýni vildi ekki alveg trúa englamyndum sem mér voru sýndar. Myndir sem sýndu misstórar ljósverur svífa um loftið, teknar á móti kenndu við “sóking”. Myndir þessar hafa vakið talsverða athygli og m.a. um þær fjallað á Lindinni. Þær þykja strika undir tilvist Guðs umfram margt annað sem fram hefur komið.

Skoðandi þessar myndir, vitandi að ég er ekki sérfræðingur í ljósmyndun eða ljósfræðum almennt, sendi ég nokkur eintök til aðila sem hefur ljósmyndað lungann úr ævi sinni og er þar að auki meðlimur í Ljóstæknifélagi Íslands. Eftir vangaveltur með honum um rakaþéttingar og ljósbrot nálægt linsu myndavéla, gerði ég tilraun.
Ég tók úðabrúsa og úðaði út í loftið og smellti mynd og.......... úúúps myndavélin fangaði aragrúa engla

Eftir nokkrar tilraunir og skoðun mynda teknum í þokulofti utandyra kom í ljós hvers kyns þetta er.
Með öðrum orðum þá upplýsist hér með að “englarnir” á myndunum eru agnarsmáir vatnsdropar sem verða gjarnan til þegar margir koma saman, uppgufun verður af fólki, kalt er úti en heitt innandyra þá kemst rakastig upp að daggarmörkum. Samspil hitastigs rakamettunar og ljóss er öðru fremur ástæða ljósdeplanna á myndunum. Þegar ljósmynd er tekin í þannig aðstæðum lýsast upp droparnir næst linsunni og fram koma ljósdeplar. Stærð þeirra ræðst svo af fjarlægð dropanna frá linsunni. Með frjóu ímyndunarafli og kannski svolítilli einfeldni má alveg sjá út englamyndir... ef vill.
Vitnisburðir um Guð og hans verk, skreyttir með svona hugarburði, snúast frekar í andhverfu sína þegar í ljós kemur fáfræðin á bak við, annað sem sagt er og á sér kannski raunverulegri stoð verður ótrúverðugra fyrir vikið.

Einhverjum kann að þykja þessi pistill kámaður fingraförum trúleysis, svo er þó ekki, hvatningin að þessum skrifum eru upphafsorð þessarar greinar.

8 ummæli:

Karlott sagði...

Góð pæling tengdapabbi!

Held satt að segja ég sé bara hörkusammála þér!

Karlott

Nafnlaus sagði...

Blessaður Erling!
Hvað er "sóking" ? Og hvað með að gull komi úr lofum fólks hvað er að gerast?
Ef þú vilt svara á emili hjá mér er það nannan@simnet.is
Takk fyrir góðar pælingar.
Kveðja
Tómasína!!!
(Nanna Þórisdóttir)

Nafnlaus sagði...

Ekki efast ég eina stund um trú þína á Guði minn kæri, eða einlægni þína í samfélagi þínu við Guð, enda þekki ég þig betur en svo. Ég veit líka að þér hefur aldrei gengið annað en gott til og vilt sannarlega hafa það sem sannara reynist.

Ég hef sjálfur heyrt ýmsar pælingar um það sem linsur myndavéla grípa á ákveðnum augnablikum. Það er reyndar til á netinu mjög ítarleg umfjöllun um slíkt og þar eru uppi tvær mismunandi skýringar. Önnur er kend við vitsmunalegar útskýringar og hin við trúarlegar útskýringar. Ég hef ekki lesið mér neitt til um þetta og því yrði mín orð ekki marktækt í neinum slíkum rannsóknum. En eitt veit ég, ef um er að ræða samspil rakastigs og hita og samþjöppun vatnsdropa nálægt linsunni þá þarf ég að láta athuga eitthvað loftræstingu og hitakerfið í húsinu mínu. Hér heima hafa verið teknar afskaplega margar myndir og í alls konar veðri og á ólíkum tíma dagsins. Um daginn var ég hér heima með vinnufund sem stóð í nokkra klukkutíma. Það var mikið beðið á fundinum og einn af fundarmönnum var með myndavél og tók all margar myndir. Undir lok dagsins tók hann síðan eina mynd inní stofu og þar birtust - eins og á mótinu margumtalaða - ljóshnöttur á myndinni.

Ég þekki ekki til vísindanna en á bágt með að trúa því að hita og rakastig hafi breyst í stofunni hjá mér á nokkrum klukkustundum með tvo karla á vinnufundi. Svo mikill var nú bænahitinn ekki....

Kærleiks og vinarkveðja.
Teddi.

Nafnlaus sagði...

Heyrðu er ekki "sóking" bara vísun í "soaking" á ensku "rennandi"ss rennandi blautt??
Og myndavélarnar eru orðnar svo næmar að þær ná að mynda uppgufun frá fólki??
Annars væri gaman að sjá þessar myndir.
sys

Nafnlaus sagði...

Drottinn blessi þig Erling minn. Gaman að lesa pælinguna þína og enn skemmtilegra ef þú hefðir haft rétt fyrir þér.

Bestu kveðjur

Kiddi Klettur

Heidar sagði...

Smá leiðrétting: Soaking (að vera soaked eða gegnblautur) er form á tilbeiðslu til Guðs, sbr. t.d. Hebr.4:10: "Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk." Gengið er til samfélags við Guð með því að skapa andrúm lofgjörðar og tilbeiðslu á tryggum stað. Það gæti verið í einrúmi t.d. í svefnherberginu og eða í góðum hópi vina t.d. í stofunni. Gengið er inn til hvíldar með því að koma sér þægilega fyrir, hvort sem er með því að leggjast eða sitja og svo kemur hver og einn fram fyrir Guð og er reiðubúinn að leyfa Heilögum Anda að tala til sín. Þetta er svona í stuttu máli hvað "soaking" er og eflaust margir sem þetta hafa gert á stundum án þess að kalla það “soaking” eða heyrt um það.

Sú vakning sem nú á sér stað, sérstaklega hjá hinum kristnu (sem er að mínu viti undirbúningur fyrir stærra) er ekki “soaking” þó vissulega megi að hluta rekja vakninguna til þess að fólk í “soaking” upplifir stórkostlega hluti og þyrstir eftir meiru. Og einmitt það finnst mér eitt aðaleinkenni þess sem er að gerast, það er þorsti eftir meiru frá Guði, svo mikið hungur að ég man ekki eftir að hafa séð eða upplifað annað eins.

Eitt af því sem hefur fylgt þessari úthellingu eru tákn, undur og kraftaverk. Þeir sem verða vitni að slíku, ég er einn þeirra, hættir til að fagna og gleðjast og skyldi nokkurn undra. Í öllum gleðilátunum kann að vera að manni verði á að telja eitthvað undur sem er það ekki. Og eflaust á eitthvað sér eðlilegar skýringar, svo sem eins og "orbs" þ.e. ljósblettir á myndum, þó svo að ég geti ekki tekið undir eðlilega skýringu þess á sumum þeirra mynda sem ég hef séð, þó svo kunni að vera á öðrum. Það sem við verðum hins vegar að passa, er að henda ekki barninu út með baðvatninu. Það er ekki nokkur vafi á því að margt óútskýranlegt hefur átt sér stað en að hafna "öllu" (er ekki að saka þig um það frændi, þ.e. að hafna öllu) vegna þess að eitthvað af því sem er óútskýranlegt á sér hugsanlega eðlilegar skýringar, er ekki rétt. Aðalmálið er að fjöldi manns hefur verið að eignast nýtt samfélag við Guð, fjöldi manns hefur verið að losna úr margskonar andlegum fjötrum, fjöldi manns hefur verið að komast til lifandi trúar á Jesúm Krist, þetta eru aðalatriðin, þetta eru ávextirnir og þeir eru góðir.

Ég er einn þeirra sem upplifi, gleðst og fagna, hjá mér vakna spurningar sem sjálfsagt og eðlilegt er að fá svör við, en fyrir mér eru þær spurningar samt sem áður aukaatriði.

Nafnlaus sagði...

Ég er aðeins farin að "sóka" og mér finnst það alveg æðislegt. Guð er mikið að fylla mig og snerta við mér og gefa mér meira af sér. En með þessar myndir, þá held ég og trúi að sumar af þessum doppum séu í alvöru englar. Það var fólk í útlöndum sem bað Guð um að leyfa sér að ná englum á myndavélar og þau fóru að taka myndir og tóku eftir þessum doppum sem þau höfðu ekki séð áður. Og ef þetta þýðir að ég sé einföld þá er það bara allt í lagi. Á maður ekki að vera eins og börn í Guðsríkinu???
En pabbi, ég elska þig grilljón þó þú sért stundum svolítill Tómas;) Sjáumst næst, Arnan þín:)

Nafnlaus sagði...

Hvort að ljósdeplar þessir séu englar eða ekki, það bara hef ég ekki hugmynd um. Mér sýnist á orðaræðu þinni að svo sé ekki. Eitt það sem mér finnst alvarlegt við texta þinn og það er það að þú gefur í skyn um einfeldni sé að ræða hjá þeim sem engla sáu útúr myndunum.
Það fólk sem ég þekki sem sá engla útúr þessum myndum er langt því frá að vera einfalt. Tilbúið að trúa meiru eftir að hafa fengið gífurlega blessun er það skrítið?

En þakka þér fyrir áhugaverðar pælingar og niðurstöður. Guð blessi þig bróðir. Kveðja Davíð

Ps: Þess má geta að stafirnir sem ég átti að rita í word verification voru jomtas ;)