þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Hér nötrar...

...jörð með miklum drunum og látum. Mikið getur maðurinn orðið agnarsmár þegar náttúruöflin hreyfa sig aðeins. Þetta eru ekki stórir skjálftar á Richter mælikvarða en þegar maður stendur beint ofan á þeim og þeir eru ekki á miklu dýpi verða þeir ekkert litlir eins og fréttir bera með sér. Eins og sést á myndinni eru upptök þeirra beint hér undir Selfossi. Húsið hristist eins og það sé barið utan með tröllslegum tilburðum. Drunurnar eru eins og verið sé að sprengja dýnamít hér í garðinum hjá okkur.
Þetta á við minn mann. Ég er þeirrar undarlegu náttúru að vera algerlega heillaður af náttúruöflunum, sérstaklega þegar þau byrsta sig svona. Hvort heldur er jarðskjálftar, eldgos, flóð eða annað. Ég man eftir mér hangandi tímunum saman út í glugga þegar Surtsey gaus forðum daga en það blasti við úr herbergisglugganum mínum í sveitinni. Eins var þegar gaus í Heimaey, það var ævintýri að sjá. Heklugosin öll.... Allt afskaplega spennandi.
Hrund leist ekkert á blikuna fyrst en svo held ég að henni hafi fundist þetta orðið spennandi, kannski smitast af föður sínum.
Mér sýnist þetta samt vera að ganga yfir, það eru komnir yfir þrjátíu skjálftar síðan við komum heim með tilheyrandi gauragangi. Allavega er búinn að vera lítill hristingur núna meðan ég skrifa þennan pistil, aðeins smá drunur og dynkir,

Annars er létt á mér brúnin, Erlan er að koma heim í fyrramálið. Ég hef gengið haltur þessa dagana, vitanlega, þar sem betri helminginn hefur vantað á mig. Það verður gott að heimta hana aftur. Það á illa við mig að vera án hennar, held jafnvel að hún hafi saknað mín líka......
Hrundin mín hefur séð um uppvöskunarvélina fyrir mig og búðin hefur aðeins verið heimsótt einu sinni, en Menam og fleiri veitingastaðir notið góðs af fjarveru hennar.

Með hristingskveðju E

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hehe þetta var bara frekar kúl, svona eftir á að hyggja.. leist ekkert á það að gluggaskrautið væri farið að detta úr glugganum og svona!

En það er bara að bíða og sjá hvort það verða fleiri!:)

Kv. Hrund

Eygló sagði...

Oh hvað ég er fúl að hafa misst af þessu!!! Gleymi aldrei 17.júní 2000 þegar allt fór á fullt og ég hef aldrei upplifað annað eins! Ji hvað það MAGNAÐ að upplifa það :) Sjáumst hress næst elsku pabbi :) Þín næstelsta dóttir Eygló

Íris sagði...

Ohh segi eins og Eygló, vildi að ég hefði fundið þetta líka. Man ekki hvenær ég fann jarðskjálfta síðast en það er amk mjög langt síðan.
En sjáumst á eftir ;)
kv. Íris