sunnudagur, nóvember 04, 2007

Innistæðuleysi

Ábyrgð fylgir orðum. Það er heilladrýgra að segja minna og geta staðið við það sem sagt er. Slúður er einn svartra bletta mannkyns. Slúður þrífst auðvitað ekki nema með aðstoð slúðurberans. Slúðurberi og rógberi eru síams, þeir vinna eins. Smásálarlegar kenndir fara af stað í huga þeirra þegar eitthvað ber á góma sem hægt er að kjamsa á og helst bæta við. Aukaatriðið sannleikur er aldrei atriði í huga þeirra. Smásálarkenndir þeirra þurfa fullnægju sem felst í því að velta sér upp úr slúðri eins og svín í for, og bera það svo áfram til næsta viðtakanda sem finnst, að viðbættu kryddi, allavega á aðra hliðina.

Einhverra hluta vegna detta sumir ofan í þessa lítilmennskuvilpu og veltast þar sem eftir er.
“Líf og dauði er á tungunnar valdi” segir í helgri bók og einnig “af orðum þínum muntu dæmdur verða”. Þess vegna er hollt að skoða sjálfan sig í spegli eigin samvisku áður en dæmandi orð falla um náungann, rétt eða röng. Allavega má ljóst vera að þú verður ekki dæmdur fyrir það sem aðrir gera eða segja hvorki við gullna hliðið eða fyrir jarðneskari dómstólum.

Kjarninn er, eigðu innistæðu fyrir því sem þú segir, eins og máltækið segir: “Hafðu orðin þín sæt, það gæti verið að þú þyrftir að éta þau sjálfur á morgun”.

Btw.... nokkrar nýjar myndir á myndasíðunni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

-Á ekkert að blogga meira???
sys