laugardagur, ágúst 28, 2004

Úr viðjum vanans

Maður er ekkert nema vaninn. Segja margir og það er alveg satt hjá þeim.
Vaninn er aftur á móti ekkert skemmtilegur til lengdar. Mér finnst hann hundleiðinlegur. Þetta er sennilega eitthvað í eðlinu hjá okkur. Líkt og að festast ofan í djúpum hjólförum þó þú ætlir það ekkert. Kannast ekki flestir við hvað það getur verið erfitt að komast uppúr svoleiðis, sérstaklega á veturna þegar hált er.

Mörgu fólki leiðist lífið af því það gerir aldrei neitt annað en það er vant að gera.
Hangir heima öll kvöld. Fer sína vanalegu rullu um helgar. Ungt fólk jafnvel er að drepast úr leiðindum, horfandi á sápuóperur og lætur sig dreyma öðruvísi líf. Sjónvarpið er vanabindandi.
Verst við þetta er hvað þetta er allt of satt.

Við Erla erum engin undantekning hvað þetta varðar. Í mörg ár gáðum við ekki að okkur og lifðum allt of vanaföstu lífi. Tegundina af lífi sem er kallað “saltfiskur”.
En við erum loksins búin að fatta að lífið er ekki bara saltfiskur. Og það hefur ekkert með kringumstæður að gera.

Lífið er fjölbreytt salíbuna. Endalaus uppspretta ánægju og gleði....er ég væminn?
Allavega er mér engin væmni í huga. Staðreyndin er sú að við hjónin höfum snúið af okkur vanann og erum laus úr viðjum hans. Við látum hvorki kringumstæður eða misvitra menn stýra hvernig okkur líður
Algjör stakkaskipti, er rétta lýsingin.
Frelsið til að lifa lífinu sæll og glaður, sjá tækifærin í hverjum nýjum degi og nota hverja stund til að gera eitthvað sem skreytir lífið. Þetta er hlutskipti okkar allra. Það eru bara ekki allir sem sjá það. Guð gaf okkur gleðina, láttu engan ræna henni frá þér, hún kostar ekkert annað en að opna augun.

Við Erla skruppum í miðbæinn í gærkvöldi, löbbuðum um og virtum fyrir okkur mannlífið. Mikið getur það verið skemmtileg iðja. Margbreytileikinn er svo dæmalaust skemmtilegur. Við röltum okkur eftir Lækjargötunni og kíktum aðeins á matseðla veitingahúsanna, enduðum svo inná Jómfrúnni. Þar fengum við okkur danskt smörrebröd, platta með mörgum tegundum, hvert öðru betra. Alls ekki dýrt en kitlaði bragðlaukana, mæli með staðnum.
Reykjavík er notaleg borg sem við notum okkur í of litlum mæli. Túristarnir koma langan veg til að njóta þess sem við höfum við nefið á okkur. Það er engin þörf á fara til útlanda til að njóta lífsins.

Eftir notalegan kvöldverð gengum við í kringum tjörnina sem speglaði fallega rökkvað umhverfið og svo í gegnum Hljómskálagarðinn, það var æðisleg stemmning.

Það þarf ekki mikið til að gera lífið skemmtilegt.
Jæja það er nóg að gera, er að fara að læra.

Eigið skemmtilegan dag.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá bara rjómó stemmning hjá ykkur mömmu;) Gott hjá ykkur;););) Hlakka til að hitta ykkur næst í október:):) Sjáumst!!!!