þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Sælt veri fólkið!

Var að koma heim úr lærdómnum. Jón Steinar var að sýna okkur fram á hvernig málarekstur fyrir dómstólum verður að byggja á rökum og aftur rökum – og engu öðru. Eins og margir þekkja, hefur hann sótt um stöðu hæstaréttardómara. Ég held að Hæstiréttur væri vel að honum kominn. Mæli með honum. Hann var að segja okkur frá hvernig margir lögmenn fara út og suður í málflutningi sínum, langt út fyrir efnið. Dómarar eiga síðan í mesta basli með að raða saman brotunum til að byggja dóm sinn á. Hann vill að dómarar stoppi menn og haldi þeim við efnið.
Ég verð að segja að ég er hrifinn af rökfræðinni í málflutningi Jóns.

Ég held að öll málefnaleg umræða sé góð ef hún byggir á staðreyndum en að sama skapi slæm þegar slegið er fram ímynduðum forsendum og umræðan byggð á því.
Ég ætla að stöðva umræðuna um spurningu unga mannsins hér af þessari ástæðu, finnst hún of flöktandi og neikvæð :-) án gríns held ég að hún sé ekki til góðs á þessum grunni og alls ekki þeim sem spurði.

Ég ætla að svara spurningunni hans Kidda og hafa það lokaorð mín í þessari umræðu.

Ég hef, eins og ég sagði, hugsað um spurninguna og er jafnvel að því enn. Ég hef komist nálægt niðurstöðu sem ég trúi: Ég held að Guði sé hvorttveggja gullið og græjurnar að skapi(…!) Hann skapaði jú allt sem til þarf, svo hvernig ætti hann að hafa á móti því? (Nema misnotkuninni á því t.d. þegar smíðaðurvar gullkálfur, og kannski sitthvað annað, sem fólk tilbiður í Hans stað í dag).
En ég er jafnframt viss um að hann staldrar við hvorugt. Ég hef þá trú að hann horfi – og hlusti, með meiri athygli á aðra hluti. Hvort tveggja gullið og græjurnar er eitthvað sem kitlar skilningarvitin – okkar (og ekkert að því) en tæplega Guðs. Að því leitinu er skyldleiki með þessu tvennu.

Að lokum nokkrar blákaldar staðreyndir (í mjúkum tón). Ég er jákvæður, alls ekki neikvæður, hugsa kannski öðruvísi en margur. Líkar vel gagnrýnin hugsun. Ég er ánægður með unga menn (og konur) sem þora að hafa skoðanir. Ég er ánægður með ykkur vini mína. Lífið er bjart og fagurt og ég nýt þess að lifa því.

Eigið frábæran dag.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll mágur minn.
Hef mikl ánægju af skrifum þínum... er sammála þér að það er hreint ekki það sama að vera gagnrýninn og að vera neikvæður... held meira að segja að það sé hábiblíulegt að vera gagnrýninn - "prófið allt - haldið því sem gott er." Er líka sammála þér að það er gaman að fólki sem hefur skoðanir - hver nennir að hafa bragðlaust kjöt á milli tannanna... (kannski það sé ástæðan fyrir því hvað margir sem ég þekki eru milli tannanna á ýmsusm - það er nebblea bragð af þeim.) Finnst gaman að sjá þau sterku viðbrögð sem skrif þín oft á tíðum skapa... er ánægð með viðhorf þitt sem er líkt og hjá afa mínum sem sagði einu sinni: "Sem betur fer er ég ekki svo aumur að allir séu sammála mér."
Eigðu góðan dag, námsdag.
Ella Gitta.

Heidar sagði...

Það er augljóst hvaða fag þú ert að leggja fyrir þig vinur minn. Ég er viss um að þú yrðir góður verjandi þar sem sannfæra þyrfti kviðdóm. Og þar sem málflutningi er lokið, ætla ég ekki að leggja fleiri sönnunargögn í málið (á fleiri í pokahorninu). :-)

Tek undir kveðjuna og segi: Eigið frábæran dag !