mánudagur, ágúst 16, 2004

Töðugjöld

Það var til siðs á árum áður að halda uppá heyannalok. Sá siður hefur verið tekinn upp að nýju. Á Hellu á Rangárvöllum voru haldin töðugjöld um helgina.
Við Erla kíktum þangað á laugardagskvöldið.
Það kom skemmtilega á óvart hvað margt var um manninn þarna. Bændur og búalið ásamt einhverjum borgarbörnum í bland. Það var gott að sjá að þarna var fólk að hafa gaman nokkurnveginn án þess að vín sæist á nokkrum manni. Mest fjölskyldufólk. Ýmis skemmtiatriði voru viðhöfð m.a. kaffibrúsakarlarnir sem slógu rækilega í gegn.
Árni Johnsen var með sinn alkunna brekkusöng og náði rífandi stemmningu í brekkuna með raulinu sínu. Allskonar gömul dægurlög og krakkasöngvar sem hann flutti. Felix Bergsson var kynnir og söng fyrir krakkana inn á milli. Hagyrðingar stigu á stall og kváðu rímur, misgóðar. María frá Kirkjulæk flutti fimmundarsöng ásamt Jóni syni sínum og tveimur barnabörnum, það kallast víst að kveða stemmur. Gaman að sjá Maríu svona hressa. Ýmislegt fleira gert sem fangaði ekki hugann og ég nenni ekki að tíunda.... Jú þessu lauk með frábærlega flottri flugeldasýningu. Einni þeirri flottustu sem ég hef séð.

Við skruppum líka í berjamó í góða veðrinu austur að Dímon. Þar var sem endranær allt krökkt af krækiberjum. Það er einmitt tegundin sem við viljum. Erla gerir úr þeim bestu berjasultu sem ég fæ. Afraksturinn eftir klukkustundar tínslu var 15 lítrar af berjum sem segir svolítið um magnið sem þarna er.

Annars dvöldum við á Fitinni um helgina í rólegheitum og góðum félagsskap nokkurra systkina minna.

Það líður að sumarlokum. Gott sumar sem verður lengi í minnum haft fyrir frábært veðurfar og skemmtileg ferðalög.
Dagurinn styttist og skólarnir eru að hefja göngu sína. Stundaskráin mín er komin og bókalistinn einnig svo ég er í startholunum. Laganámið krefst algerrar ástundunar og yfirlegu. Ég er góður eftir sumarið, lít björtum augum til vetrarins.

Eigið góðan dag.


Engin ummæli: