fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Hitamet !

Það er í hlýrra lagi hér á norðurhjara. Við Erla eyddum seinni hluta dagsins í gær í miðbæjarrölt. Það var sérstakt, kom eiginlega spánskt fyrir sjónir.
Lykt af sjóðheitu malbiki í bland við allskonar matarlykt sem blærinn bar með sér frá veitingastöðum sem flestir höfðu raðað stólum út á götu til að fólk gæti sest niður utandyra og notið dagsins.... minnti okkur ekki á Frón. Fólk að kæla sig á köldu öli - sitjandi úti (!) Allsstaðar fólk í stuttbuxum og ermalausu. Austurvöllurinn eins og spænsk baðströnd, endalaust fólk að sleikja sólina og ylinn. Miklu frekar suðrænt.
Þetta var magnað. Þurftum svolítið að klípa okkur í handlegginn til að muna að við vorum ekki í fríi suðurfrá. Missti út úr mér á röltinu að nú væri stutt í bílaleigubílinn og hvert við ættum að fara til að fá okkur að borða í kvöld.
Það er eins og ró og friður færist yfir fólk þegar náttúran dælir svona suðrænu hitabeltislofti yfir okkur í þessum mæli sem nú er að gerast. Mætti kalla þetta gælur náttúrunnar.

Eftir þetta skemmtilega rölt um miðborgina kíktum við á ylströndina í Nauthólsvík. Bílaröðin náði út á Loftleiðahótel (!) Ströndin iðaði af fólki. Íslendingar kunna þá eftir allt saman að njóta dagsins. Þarna var stemmningin miðjarðarhafsleg og auðvelt að gleyma að við vorum norður á gamla Fróni en ekki á miðbaug.
Við settumst niður og nutum sólarinnar þangað til vesturbærinn roðnaði í geislum hennar þegar hún hvarf bakvið byggingar og ákvað að setja punkt eftir þennan góða dag.

Við Erla ákváðum að setja punktinn aðeins aftar og fullkomnuðum stemmninguna með því að skreppa aðeins aftur í miðbæinn, settumst inná Jómfrúna og fengum okkur ekta fleskesteg að dönskum hætti og ísköldu, hvergi í heiminum eins góðu, Gvendarbrunnavatni.

Ísland.... dýrgripur Guðs sem hann hefur lánað okkur aðgang að – tímabundið.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ, hæ pabbi;)
Gott hjá þér að byrja aftur að blogga;););) Hlakka til að kíkja hér við............ á HVERJUM degi;););) Hafðu það gott og sjáumst eftir rúmlega viku;););) Þín uppáhalds, næstynsta dóttir...Arna

Nafnlaus sagði...

Hellú pabbi!!
Var að kíkja hér í fyrsta skiptið og það verður gaman að fylgjast með skrifum þínum!! Keep up the good work :D
Þín elsta dóttir
Íris E
P.s. Petra Rut biður kærlega að heilsa afa sínum ;o)