mánudagur, október 18, 2004

Enn á veiðum

Verð að viðurkenna að nú er nóg komið......... í bili.
Við bræðurnir vorum enn að veiða. Við vorum sammála um að fátt er til sem stendur því jafnfætis. "Lítið gleður auman" gæti einhver sagt, og haft rétt fyrir sér. Það skilur enginn nema sá sem þekkir tilfinninguna, ekki sportið, heldur þessa orginal. Hlynur orðaði það ágætlega þegar við vorum að tala saman um þetta "maður bráðnar saman við náttúruna einhvernvegin".
Ætli sé Indíánablóð í okkur...?

Ég var að lesa ágrip úr fyrirlestri Indíánahöfðingja að nafni Lúther Reistur Björn - sem fæddist árið 1867 - Hann eyddi fyrstu árum ævi sinnar á sléttum Nebraska og Suður-Dakóta. Ellefu ára að aldri var hann einn af fyrstu nemendunum sem innrituðust til náms við skóla handa indíánum í Carlisle, Pennsylvaníu. Eftir fjögurra ára nám var hann gerður að kennara í Suður-Dakota. Hann starfaði sem túlkur við ,,Wild West Show" Buffaló Bills. Síðustu árum ævi sinnar varði hann til fyrirlestrarhalds og ritstarfa.
Læt fylgja smá glefsu hér:
"Aldrei varð oss hugsað til víðfeðmrar opinnar sléttunnar, fagurmótaðra, ávalra hæðardraganna eða til sístreymi hins ferska vatnsflaums sem þræðir bugðu af bugðu gegnum þykkni vatnagróðursins margslungið - aldrei varð oss hugsað á þann hátt að þetta væri ,,villtrar" náttúru. Aðeins í augum hins hvíta manns er náttúran ,,villt" og einungis frá hans sjónarhorni er landið numið ,,villtum" dýrum og ,,skrælingjum". Í skiptum vorum við náttúruna var hún töm og spök. Jörðin var auðsæl og gjöful, og allt umhverfis oss urðum vér varir blessunar hinnar Miklu Dulúðar. Loðinn kom hann að austan og óð fram með ruddafengnu ofbeldi og hlóð ranglæti á ranglæti ofan gagnvart oss og þeim sem oss stóðu næst. Þá gjörðist náttúran ,,villt". Þá flúði dýr á skógi er það vissi mann á næstu grösum. Þannig varð til upphaf ,,VILLTA VESTURSINS"."

Getur verið að við þessir hvítu séum kannski miklu lengra frá þessum gildum sem hafa með að gera virðingu fyrir sköpuninni og Guði. Því þótt þeir hafi kallað Guð "Hina miklu dulúð" geri ég ráð fyrir að Hann hafi ekki tekið þá í karphúsið þessvegna.

Það veiddist vel, kjöt og fiskur.

Eigið góðar stundir


Engin ummæli: