Ég hef lengi þóst vera veiðimaður en er samt enginn reynslubolti þegar kemur að íslenskum veiðiám. Reyndar á það þá skýringu að í gegnum tíðina hefur verð á veiðileyfum verið ofan við það limit sem ég hef leyft mér að setja í leikaraskap. Ég er samt með króníska veiðidellu sem ég sleppi of sjaldan lausri.
Það er því lítill vandi að plata mig í veiði ef einhverjum dettur svoleiðis í hug.
Bjarki frændi minn setti sig í samband við mig eftir síðustu helgi og sagði mér að Skagafjörður væri troðfullur af gæs og innti mig eftir að fara í ferð þangað með honum og öðrum félaga hans. Það var auðsótt og norður fórum við kátir kallar væntandi, og í kornakur nokkurn góðan fórum við væntandi, stilltum upp gerfigæsum og biðum væntandi... og biðum... og biðum enn meira... og görguðum í gæsaflautur til að reyna að lokka gæsir til okkar... árangurslaust. Eftir nokkurra klukkutíma bið og frost sem beit í nef sannfærðumst við loksins um að þetta væri ekki biðarinnar virði. Ein gæs kom þó svífandi og dó í fanginu á okkur... that´s it....!
Við áttum tvo svona daga og mættum fyrir birtingu báða dagana, lágum ofan í skurði, hálfir ofan í vatni, í ískulda og görguðum út í loftið án svars en auðvitað var þetta afskaplega skemmtilegt engu að síður ;-)
Veiðin er þannig að stundum gefur og stundum ekki. Það er reyndar sennilega það sem gerir veiðina spennandi. Ef maður ætti alltaf vísa veiði þá væri spenningurinn horfinn úr þessu. Við fengum samt nokkrar endur og einn... HANA, já svona hana með hanakamb.
Það vildi þannig til að húsfreyjan á bænum sagði okkur frá hananum sínum, hann væri forynja mikil og grimmt kvikindi sem réðist á börn og fullorðna, svo rammt kvæði að atgangi hans að það væri hin mesta greiðvikni ef okkur tækist að sálga honum. Við létum ekki segja okkur það tvisvar og gerðum leiðangur í hænsnakofann.
Sveitamaðurinn í hópnum áræddi að fara inn fyrir dyrnar og kanna harðfylgni hanans sem stóð undir væntingum og réðist á mig með miklum látum og gassagangi. Hann skellti sporunum utan um lappirnar á mér og reyndi að stinga mig með þeim, harðfylgni hans var mikil og árásirnar ofsafengnar. Það varð úr svolítill fætingur sem endaði með sigri mínum og var haninn í framhaldi af því rekinn úr sínum hænsnahópi, út fyrir dyr og þaðan út á tún. Þar féll hann fyrir byssuskoti, elsku skinnið.
Mín skýring á veiðileysi ferðarinnar er einföld. Það var allt krökkt af gæs daginn áður en við komum og dagana á undan. Það hafði einfaldlega farið eins og eldur um sinu í gæsheimum að við værum á leið norður og því flaug stofninn allur suður um heiðar til að forða sér....
og ég skil þær vel.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli