föstudagur, nóvember 16, 2012

Vetur konungur

Ekki er annað að sjá en að árstíðirnar hafi sinn vanagang þetta árið. Hér er allavega kominn snjór og áin er ísuð enda 3° frost og hún er yfirleitt ekkert að tvínóna við að krapa, ég hef raunar oft undrað mig á hvað þarf lítinn kulda svo hún verði krapaflóð, gerist oft við frostmarkið. Það þýðir auðvitað að hún er svo köld og þess vegna þarf svona lítið frost til að hún frjósi.
Þrátt fyrir kuldann er afskaplega friðsælt að sjá hér yfir, krumminn er að komast í vetrargírinn og maður er farinn að heyra í honum í fjarska eins og gjarnan á froststilltum vetrarmorgnum. Mér finnst ómurinn af honum alltaf vinalegur.

Vinnan tekur sinn toll af tímanum okkar eins og fyrri daginn, það hefur verið mikið að gera hjá okkur undanfarið og væntanlega er ekki mikill letitími framundan. Lögfræðileg verkefni hlaðast á mig og jólasalan er að fara af stað í verslunum og við erum víst þáttakendur í því. Vinnutengd kaupstaðarferð á eftir en fyrst eru það ísvélarþrif, það er fastur liður á tíu daga fresti, ekkert sérlega spennandi verkefni en nauðsynlegt.

"Einn enn áður en lætin byrja" sagði maðurinn, ég ætla að hafa það eins og fá mér einn kaffibolla áður en við komum okkur út í daginn.
Njótið daganna gott fólk.

Engin ummæli: