fimmtudagur, október 11, 2012

Hausthljóð og litadýrð.

Það var hausthljóð í álftunum sem létu illa á bæjarlæknum í nótt. Ég vaknaði við gargið í þeim, það er öðruvísi á haustin en á vorin. Þær finna að vetur nálgast og það er ekki besti tíminn þeirra. Vorhljóðin þeirra bera með sér einhver blíðmælgi sem heyrast ekki á haustin. Hvað sem því líður þá finnst mér alltaf jafngott að heyra náttúruhljóðin inn til mín, sérstaklega um dimmar nætur þegar allt, nær allt, er í svefni og ró er yfir. Nína og Geiri eru löngu farin ú eynni með tvo unga í farteskinu, þau eru seig við þetta og gefast ekki auðveldlega upp. Áin er alltaf jafngóður nágranni þó segja megi að ég hafi gert meiri væntingar til hennar sem veiðiár þegar ég flutti hingað fyrir sex árum síðan. Þá stefndi hugurinn á grillaðan lax hversdags og lítið þyrfti að hafa fyrir því annað en að láta leka út færi hér af pallinum hjá mér.
Laggó með það.

Haustið er löngu komið með skrúðið sitt, reyndar minnkaði skrúðið mjög þegar rokið kom í september og sleit mikið af laufi trjánna hér áður en þau tóku á sig haustlitinn. Það var skömm því haustið á að vera litfagurt augnayndi.

Veiðin hefur verið með allra slappasta móti í haust þrátt fyrir góðar tilraunir. Það bjargaði þó haustinu að fá þennan stóra, hann fær heiðursess á þessum bæ.
Veturinn er líka góður tími, stuttir dagar og langar nætur, jólin og ýmislegt gott.

Njótið daganna gott fólk.




Engin ummæli: