sunnudagur, janúar 04, 2009

Góðra vina fundur...

Hér í húsinu við ána var fjölmenni í gær. Tilefnið var jólaboð ættarinnar. Haldið í "pot luck" stíl eða "Pálínuboð" á íslensku, eins og í fyrra. Ættartréð okkar talið frá pabba og mömmu. Okkur telst til að með börnum hafi verið 65 manns hér í húsinu í einu. Það er talsverður fjöldi en eins og máltækið segir "þröngt mega sáttir sitja" og öll erum við stórfjölskyldan meira en sátt, allir eru vinir eins og dýrin í skóginum. Reyndar var rýmra um fólk í ár því efri hæðin var notuð meira núna en í fyrra.
Ég er ánægður með góða mætingu, enda þeirrar skoðunar, sérstaklega núna eftir fráfall mömmu, að við þurfum að leggja vinnu í að viðhalda tengslum okkar. Ýmsar uppákomur líkt og þessi getur virkað eins og lím í fjölskylduna. Fyrirhugaður útileguhittingur annarrar kynslóðar í sumar er mér mjög að skapi. Gott að yngra fólkið finni hjá sér hvöt til að hittast og þannig viðhalda ættarböndunum.
Það var ánægjulegt að sjá allan barnaskarann sem fylgir unga fólkinu, efniviður framtíðarinnar, nýju brumin á trénu, hluti af okkur sjálfum, sem munu svo vaxa upp og fæða af sér nýjar greinar á ættartréð. Gott mál.
Ég er ánægður með mitt ættfólk og þakka fyrir skemmtilegt og gefandi samfélag.

1 ummæli:

Eygló sagði...

Takkk fyrir samveruna í gær :) Þetta var ekkert smá skmmtilegt =) Svoo innilega gaman að hittast svona öll..
Ég er þegar farin að hlakka til að ári :)
Eyglóin