fimmtudagur, janúar 01, 2009

Nýtt ár 2009

Enn eitt árið runnið inn í eilífðina og við stöndum, einu sinni enn, á nýjum upphafsreit. Ný spil gefin og næsti hringur spilaður. Það voru margir sigurvegarar í síðasta slag, en líka einhverjir sem töpuðu. Þannig er lífið.
Ég þakka gestum síðunnar samfylgdina á árinu og trúfastar heimsóknir.

Það er alltaf gaman að líta um öxl við áramót og skoða hvað markverðast hefur gerst á árinu. Mamma lést á árinu eftir löng veikindi, við geymum fjölda minninga um hana í hjörtum okkar, þær eru demantar í minningasafninu.
Við fjölskyldan getum þakkað fyrir gott ár. Engin slys eða alvarleg veikindi hafa komið upp á árinu. Við byggðum nýjan kofa á Föðurlandi. Við ferðuðumst og nutum lífsins á Ölfusárbökkum.
Við fylgdum auðvitað inn í kreppuástand eins og aðrir Íslendingar. Ef spá hagfræðinga rætist verður nýtt ár líklega nokkuð ólíkt mörgum undanfarinna ára. Allskyns uppgjör verða. Ekki aðeins hjá helstu áhrifavöldum kreppunnar heldur líka hjá almenningi sem neyðist til að horfast í augu við nýtt landslag í sínum persónulegu fjármálum. Margir munu mæta meiri fjárhagslegum hremmingum en þeir hafa áður upplifað.
Í þessu myrkri eru samt glætur sem munu bara stækka, og fyrir rest lýsa eins og sólin. Ég er að tala um ný viðhorf, ný gildi. Kannski rennur upp sú tíð á árinu að menn munu spyrja "hvað ertu" í stað "hvað áttu". Upp úr hruni íslenska loftbólugullkálfsins mun rísa, trúi ég, heilbrigðara og betra mannlíf en við höfum búið við hingað til. Kannski verður horfið til hverfandi gilda eins og "sígandi lukka er best" og hin gleymdu viðhorf "nægjusemi" og "ráðdeild" sett í öndvegi og kannski verður það aftur álitin dyggð að spara.
Hvaðan sem á er litið er allavega ljóst að Ísland eins og við þekkjum það mun taka miklum breytingum.

Ég hef góðar væntingar til nýs árs þrátt fyrir kólgubólstra. Nú liggur leiðin í Háskólann á ný eftir tveggja ára hlé. Það verður skemmtilegt en um leið erfitt. Við Erlan ætlum að halda áfram að njóta augnablikanna í lífinu sem sjaldnast þarf að kosta peninga, bara að ganga með augun opin.
Við ætlum að rækta garðinn okkar sem aldrei fyrr. "Nær er skinnið en skyrtan" segir máltækið og því munum við sem fyrr leggja mesta áherslu á blómin sem næst okkur standa, enda liggur ábyrgðin okkar stærst þar. Áherslan er líka á að rækta vináttu fjartengdari í ríkari mæli en hingað til.
Húsið við ána er áning á Selfossi fyrir alla sem telja sig vini okkar, það er því undir þér komið sem lest, hvort þú tekur þetta sem heimboð ;)

Ég óska ykkur fljótandi gæfu og yfirflæði blessana á nýju ári.

Engin ummæli: