þriðjudagur, desember 30, 2008

Tjött

Saltaði hálfan hest ofan í tunnu í dag. Svo vorum við með hakkabuff eins og mamma gerði alltaf þegar hesti var slátrað. Ég er svo mikill sveitakall inn við beinið að mér finnst gott að eiga mikinn mat fyrir mitt fólk. Og ég virkilega kann að meta saltað hrossakjöt, fátt betra. Hesturinn var feitur, svo ég á von á gæða saltkjöti upp úr tunnunni í næstu viku.

Síðasti dagur ársins á morgun, hreint magnað, svo stutt frá síðustu áramótum. Áramótin verða góð ef að líkum lætur. Við verðum saman hér í húsinu við ána, allur minn ættleggur, að fagna nýju ári. Ekki nóg með það, hér mun allur ættleggurinn gista.

Íris er hér ásamt sínum börnum að lesa undir próf, Arna er hér líka og Thea. Mér sýnist húsið við ána toga í fleiri en okkur Erluna, er reyndar ekkert hissa á því.
Við ætlum að hafa jólaboð hér, eins og í fyrra, fyrir afkomendur pabba og mömmu. Það verður frá klukkan 15:00 á laugardaginn, eins lengi og hver nennir. Í fyrra var þetta mjög notalegt og gefandi samfélag.
Á von á því sama nú og hlakka til.

.....Smá eftirmál. Þegar ég las þetta yfir sá ég að ég hafði verið ofan í tunnu að salta hálfan hest........!
Það var sem sagt ekki þannig, ég saxaði niður hálfan hest og saltaði bútana ofan í tunnu :-)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Ofan í tunnu" Ég hló af mér rassinn þegar ég las eftirmálann. Sá þig fyrir mér ofan í risastórri tunnu að verka hrossakjöt. Hrikalea fyndið. Sorry lætin;) Arnan

Nafnlaus sagði...

hehe fyrirgefðu að við vöktum ykkur - váááááá hvað þetta var fyndið, ég sá þig strax fyrir mér eins og einhver hobbiti ofan í tunnu að skera kjöt:) hahaha, bara fyndið!

-Hrund