miðvikudagur, desember 10, 2008

Toppurinn á tilverunni?

Við vorum í “Danmerkurferð” um helgina, fórum á föstudags eftirmiðdag af stað og komum í gærkvöldi. Ég kalla hana danmerkurferð því þannig hljómaði planið.
Til stóð að fara jólaferð til Köben eins og við höfum gert undanfarin ár. Núna var það vinnustaðaferð með vinnufélögum Erlu.
En í veðrasömum ólgusjó íslensku krónunnar, ákváðum við að það væri ekki með nokkru móti verjandi að vera þarna úti með dönsku krónuna í 25 kalli......! Svo við breyttum danmerkurferðinni sem átti að vera til Köben í “danmerkurferð”, á jólahlaðborð í Hótel Örk í Hveragerði með vinnufélögunum og svo við tvö á Föðurland í Fljótshlíð. Þar vorum við svo þá daga sem ferðin út hefði tekið. Það má fullyrða að þetta var hagstæðasta danmerkurferð sem við höfum farið. Enginn visa reikningur, engar búðir og enginn hreimur til að jafna sig á.

Hinsvegar komum við afslöppuð til baka eftir frábæran tíma. Alger slökun, lestur bóka við arineld, matseld (gourmet) í rólegheitum, gestir litu við og svo til að kóróna aðventustemninguna, kyngdi niður jólasnjó sem hékk á greinunum. Það var því engu minni vandi að komast í jólastemningu þarna í sveitarómantíkinni en í jólatívolíinu í Kaupmannahöfn. Ég notaði tímann og skrifaði jólabréfið okkar fjölskyldunnar við notalegan yl kamínunnar, undir áhrifum kyrrðar og notalegs tifsins í gömlu klukkunni okkar - jú það er alveg satt, hún hægir á tímanum, hún telur svo hægt.


Þarna í Fljótshlíðinni tel ég eins og “Gunnar frændi” á Hlíðarenda, toppinn á tilverunni. Þar var maður á ferð sem kunni að meta landið af gæðum þess og tók afleiðingunum.
Fljótshlíðin er falleg, hvort sem hún er í vetrar- eða sumarbúningi, um það þarf ekki að fjölyrða. Það er því gott að þurfa ekki að standa frammi fyrir sama vali og Gunnar kallinn þurfti forðum.

Það er jú fjármálakreppa en hverju fáum við breytt í því? Látum ekki áhyggjur af því sem við getum ekki breytt, skemma dagana.
Verum jákvæð og njótum aðventunnar.

2 ummæli:

Eygló sagði...

Þetta hefur eflaust verið hin notalegasta Danmerkurferð =)
Ég hlakka til að kíkja í heimsókn í kofann, sé á myndunum að þetta er svoo kósý =)
En hafðu það gott og ég hlakka til að sjá þig á laugardaginn =)
Eyglóin

Íris sagði...

Ohh, notalegt!!! Hlakka rosa til að koma og sjá nýja kofann ;)
Sjáumst annars á morgun ;)