þriðjudagur, desember 02, 2008

Aðventa

Jólatónlistin berst hingað inn í stofu. Litli trommuleikarinn ómar núna. Það er föndurstund í eldhúsinu. Erlan er að gera aðventukrans, grenikrans með gamla laginu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þeir fallegastir.
Hér er orðið afar jólalegt enda ekki við öðru að búast. Erla hefur alltaf varðveitt jólabarnið í sér sem hefur eflaust haft mikið varðveislugildi fyrir jólabarnið í mér.
Það gleður mig alltaf þegar hún hefst handa við að taka úr hillum og kitrum og setja upp ýmislegt jóladót í staðinn sem við höfum sankað að okkur á löngum búskap. Mikið af okkar jóladóti hefur fylgt okkur lengi og tvinnast saman við söguna okkar. Margt sem kemur uppúr kössum hjá henni skapar því notalega nostalgíu sem yljar hjartanu.
Við erum íhaldsöm þegar kemur að endurnýjun á þessu dóti. Sagan er okkur of mikils virði til að við getum hent til að kaupa nýtt.
Enda er það svo að stelpurnar okkar þekkja þessa hluti líka vel frá uppvaxtarárum sínum og hætt er við að heyrðist hljóð úr horni ef við færum að skipta þessu út.

Ég var heima í dag. Vann við að setja upp ruslatunnustatíf sem hefur vantað hér. Kannski ruslatunnan verði til friðs þegar hvessir hér eftir. Bætti líka í jólaljósin í garðinum. Setti í einn runna í viðbót. Fann seríu sem vantaði bara réttan straumbreytir. Átti einn sem passaði ekki en tókst að mixa það saman.

Það er ekki laust við að um mig fari einhverjir notalegheitastraumar, sitjandi hér í stofunni, hlustandi á jólatónana flæða úr eldhúsinu. Ég veit að frammi er jólabarn að leika sér. Hrundin situr við tölvuna að læra, hún er í prófum núna og gengur vel að vanda.
Þetta hús gælir einhvernveginn við okkur af fágætum rausnarskap. Kannski er það staðurinn, áin ... eða er það félagsskapurinn? Hallast að því síðastnefnda.
Það geisar kreppa.... úti.
Hér inni er eins og hún sé víðsfjarri, líkt og norðankulið.

2 ummæli:

Íris sagði...

Jiii, hvað það var eitthvað notalegt að lesa þetta ;) Gott að geta notið þessa tíma alveg í botn!!
Hlakka til að hitta ykkur í húsinu ykkar :)

Nafnlaus sagði...

Tek undir með henni Írisi sætu:) Mér finnst einmitt alltaf eins og allar áhyggjur og kvíði og svoleiðis verði eftir fyrir utan þegar ég kem heim til ykkar mömmu.. Ég einhvern veginn afstressast að koma til ykkar. En love U og sjáumst hress:):) Arnan