Ég hringdi í lögregluna, þurfti reyndar að hringja tvisvar áður en þeir komu. "Er þetta ekki gott tækifæri fyrir björgunarsveitina að ná henni lausri?" spurði ég löggustrákinn sem kom. "Ef ekki, verðið þið að skjóta hana, það er ekki hægt að horfa upp á hrafninn éta hana lifandi". Hann samsinnti því og lofaði að þeir gerðu eitthvað.
Við svo búið fórum við Erlan til Reykjavíkur. Þegar heim kom keyrðum við upp eftir. Hvít þúst sem hreyfðist ekki. Álftin dauð, núna tilbúin á veisluborð hrafnsins.
Þeir hafa ekki yfirgefið veisluborðið síðan. Margra daga birgðir af fínasta kjöti.
Núna er allt á kafi í snjó. Gatan okkar ófær í morgun og Hellisheiðin lokuð. Einhver bankaði hér upp á áðan og spurði hvort ég gæti dregið bílinn þeirra úr skafli hér fyrir neðan. Ég fór auðvitað og kippti honum lausum. Gat samt ekki annað en brosað að ofurtrú mannsins á litlu bílpúddunni sinni. Hann hafði ætlað að keyra upp í skógrækt hér upp með á. Eins kolófært og hugsast getur, varla jeppafært. Trúin flytur fjöll stendur skrifað.... en ekki smábíla fasta í snjó.
Ég gaf smáfuglunum í morgun. Þeir eru seinir að fatta litlu skinnin. Bara nokkrir sem hafa litið við. Þeir verða samt fegnir að fá bita þegar fattarinn þeirra hrekkur í gang.
Við fórum á jólatónleika Sinfóníunnar í gærkvöldi. Það var virkilega gaman eins og von er. Jólasyrpur og hnetubrjóturinn, flottur flutningur enda einvalalið.
Við gerðum enn víðreist. Skruppum á Skagann eftir tónleikana í útskriftarveislu. Marianne, Sigga og Barbroar var að útskrifast sem stúdent. Dúxaði stelpan, flott hjá henni. Veisluföng eins og búast mátti við hjá þeim, flott og gott.
Í dag er bara afslöppun hér í húsinu við ána. Erla og Hrund báðar að dunda jóla-eitthvað með jólalög undir geislanum. Ekki erfitt í þessu umhverfi hér sem umvefur okkur af fádæma rausnarskap.
2 ummæli:
Þið bloggið svo notalega... - en já, æðislegur dagurinn í dag! Ótrúlega gaman að hafa allt svona skreytt og flott:)
Elsk elsk
-Hrund
Oooooooooooh, ég hlakka svoo til að koma til ykkar, see ya, Arnan
Skrifa ummæli