
Hér í húsinu við ána ríkir eftirvænting, sérstaklega í hugum litlu barnabarnanna, Örnudætrum, sem skreyta daginn ríkulega með einlægri tilhlökkun til kvöldsins. Við áttum notalegan matartíma í hádeginu að vanda, en vaninn er að baka smábrauð og bera fram, ásamt rúgbrauði með ýmsu góðgæti, laxi, kæfu, síld, eggjum, ostum og fleira í hádeginu á aðfangadag.
Núna er matseldin í gangi undir jólalögum. Hamborgarhryggurinn var að fara upp úr pottinum. Erlan er að sjóða grautinn og ég er að fara að gera sírópið fyrir karamellusósuna út á grautinn. Allt eftir gömlum hefðum sem má ekki brjóta. Ég er óendanlega þakklátur fyrir þessi gæði sem við búum við að geta haldið jól með þessum hætti. Margt af þessu er erft úr foreldrahúsum okkar Erlu. Það er svo ómetanlegt að sjá sama braginn erfast til okkar eigin barna.
"Sjá ég boða yður mikinn fögnuð.... Yður er í dag frelsari fæddur" sögðu englarnir forðum. Munum tilgang jólanna. Ég óska lesendum mínum gleðilegar hátíðar og friðar.
1 ummæli:
Það er sko alveg ómetanlegt að fá að vera hérna með ykkur mömmu og Hrund yfir jólahátíðina og ég veit að stelpunum mínum finnst það líka. Elska þig pabbi:) Arna
Skrifa ummæli