sunnudagur, desember 28, 2008

Vorlegt

Það er engu líkara en að vorið sé komið. 8 stiga hiti og hæglætisveður. Svona tíð kallar á mann út í náttúruna. Það verður ekki komist hjá því að fara í göngutúr á eftir, upp með á eða kannski niður í bæ og skoða mannlífið. Við eigum von á gestum á eftir, allir í jólafríi ennþá og því um að gera að hitta mann og annan enda snýst lífið fyrst og fremst um samfélag.
Áin er róleg núna eftir skot í henni um jólin. Asahláka eins og gerði í jólabyrjun þýðir flóð hér. Áin er fljót að taka við sér, hvort sem hún vill stækka eða minnka, aldrei eins, síbreytileg eins og íslenska veðrið. Við verðum í fríi að mestu milli jóla og nýárs svo makindin hér halda áfram og við að njóta þeirra.

Hér var líf og fjör í gær. Íris kom með ungana sína. Hún fékk að lesa hér í rómantíkinni undir próf meðan við litum eftir börnunum.
Við fengum líka góðan gest, Gunnhildur Haraldsdóttir kíkti hér við. Hún var eitt sinn gift Danna bróður og er móðir frænku minnar Hafdísar Daníelsdóttur. Það var gaman að spjalla við hana um heima og geima.
Jólin hafa annars verið afar góð, þau hafa liðið hratt eins og gjarnan er með gæðatíma. Ég er að klára Myrká eftir Arnald, ágætis bók, en skilur ekki mikið eftir sig. Innihaldsríkari bækur höfða meira til mín. Arnaldur er samt góð afreying.
Arna skilaði dætrunum til pabba síns í gær svo nú er bærinn barnlaus. Einhversstaðar segir að slíkur bær sé daufur. Það er kannski daufara yfirbragð, en samt - hér er svo gott að vera.

Áramótin framundan. Kalkúni verður á matseðlinum í fyrsta skipti í mörg ár. Sjáum til hvort tekst að gera hann bærilegan. Vantar uppskrift að góðri fyllingu, ef einhver lúrir á slíku er það vel þegið.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Var með kalkúa á aðfangadag.

Fylling

Svinakakk-500gr
sellerí -2 stönglar
gulrætur -2 stk
salvia góður slatti
græn epli -2 stk
egg -1-2 stk
allt britjað smátt og hrært vel,
muna að smirja vel með smjöri að utan og ausa nokkuð oft.
Gömul kona

Erling.... sagði...

Takk fyrir þetta "gamla kona"... segi ég án þess að vita aldur. Væri gaman að vita hver titlar sig svona.

Nafnlaus sagði...

Það gæti verið að pabbi lægi á uppskrift að góðri fyllingu fyrir kalkún. Hún er allavega mjög góð :)

Kveðja úr vesturberginu.

Eygló sagði...

Já það er rétt hjá Bjössa en fékkstu ekki uppskrift hjá Kiddý þegar þú gerðir kalkún fyrir milljón árum í Hamraberginu???
Eyglóin