sunnudagur, júlí 30, 2006

Alla étið hafði þá ....

Fuglalífið á Fitinni er engu líkt á þessum árstíma. Ég hef verið að reisa bjálkakofa þar austurfrá síðustu daga. Þúfutittlingar höfðu gert sér hreiður í brekkunni við hliðina á húsinu. Þeir voru ekkert yfir sig hrifnir af nýja nábúanum, mér, þegar ég hófst handa. Með okkur tókust þó ágætis samskipti við nánari kynni. Þeir báru orma í svanga gogga í gríð og erg og leyfðu mér fyrir rest að fylgjast með. Í hverri ferð stoppuðu þeir í trjátoppunum og könnuðu umhverfið og ef ekkert annað en ég var á ferðinni steyptu þeir sér niður í hreiðrið þar sem sísvangir goggar göptu eftir næringarríkum lirfum og öðru góðgæti.
Það var gaman að fylgjast með eljuseminni í þeim við verkið og greinilegt að þau tóku foreldrahlutverkið afar alvarlega.
Annað slagið stoppaði annað þeirra vinnuna og settist á grein og söng. Mjög hljómfallegt og hrífandi nett hljóð, ég minnist ekki að hafa fyrr heyrt þúfutittling syngja á þennan hátt.

Í fyrradag þegar ég mætti á staðinn voru þeir ekki að vinna eins og venjulega. Ég fór þessvegna og kíkti ofan í holuna þeirra. Tóm.......!
Skemmdarverk, eitthvert kvikindi hafði étið alla ungana. Sorg, þau voru orðnir góðkunningjar mínir og skemmtilegir nágrannar. Kvikindið sem át þá var afar heppið að sýna sig ekki þarna á þessari stundu. Ég hefði fullnægt réttlætinu með auga fyrir auga aðferðinni, klárlega.

Kofinn verður tilbúinn fyrir verslunarmannahelgi sýnist mér, eins og stefnt var að.
Arna mun gista þar um helgina með þrjár af afagullunum mínum.

Annars vorum við Erlan mín í brúðkaupi í dag, Hafdís dóttir Danna bróður míns gifti sig úti undir berum himni í garðinum heima hjá móður sinni. Veðrið var fallegt eins og brúðurin sjálf. Einstaklega fallegt og vel gert og veisluhöld flott.

Já lífið er fallegt ferðalag.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

-Ertu viss um að þeir hafi verið étnir?
Það var líka þúfutittlingshreiður hjá mér, sem ég fylgdist vel með og var hann orðinn svo spakur að við gátum horfst í augu við hann í meters fjarlægð.
-en einn morguninn var mitt hreiður líka tómt, en ég var viss um að þeir væru bara farnir að heiman, að reyna vængina sína..........????
-Ekki segja mér að þeir hafi verið étnir... :(
-Þeir voru orðnir fiðraðir..........
Gerða sys

Erling.... sagði...

Étnir, klárt mál, þeir voru ekki orðnir fiðraðir einu sinni.
kv E