Margt hefur á dagana drifið undanfarið. Við eyddum tveimur vikum suður á Spáni með vinum okkar Heiðari og Sigrúnu. Tveir bræðra minna Hlynur og Hansi með sín föruneyti voru þarna suður frá á sama tíma og hittumst við nokkrum sinnum. Farið var í þriggja daga ferð suður til Andalúsíu þar sem við skoðuðum bæði Alhambra höllina og hellana í Nerja. Hvorttveggja mikilfenglegt. Annað mannanna smíð og hitt verk náttúrunnar sjálfrar. Náttúran hafði betur og uppskar óskipta aðdáun okkar. Síðan fórum við líka í eins dags ferð norður í Guadalest sem er Mára virki, það síðasta sem kristnir náðu undir sig á Spáni.
Það er alltaf gott að láta sólina verma sig, þó stundum geti hún farið offari í því hlutverki sínu. Hitinn var mikill, sérstaklega fyrstu dagana en svo kólnaði og varð bærilegra norðurhjarabúum eins og okkur. Við fórum þrisvar á ströndina. Það var gott því sjórinn er passlega heitur til að fara í sjóbað og kæla sig þegar manni finnst maður orðinn eins og brenndur snúður.
Moskítóflugur herjuðu á okkur, illskeyttar blóðsugur sem ógerlegt er að verjast því þær stinga mann án þess að maður verði var við og svo klæjar í bitið meira en orð fá lýst.
Okkur reyndist líka svolítið erfitt að finna veitingastaði sem pössuðu smekk okkar, allavega mínum svo ég tali bara fyrir mig. Tveir matsölustaðir stóðust þó vel kröfur minna freku bragðlauka, annar var kínverskur Wok staður og hitt spánskt steikhús sem við enduðum ferðina á að heimsækja. Flott Spánar stemning þar og góður matur
Húsið sem við dvöldumst í eiga þau Kiddi og Ásta ásamt Heiðari og Sigrúnu. Húsið er fínt og vel búið húsgögnum svo vel fór um okkur þar.
Umhverfi Torrevieja er flatlent og mjög þurrt. Ekki alveg heillandi að mínum smekk en bæði norðurfrá og suðurfrá er mun meiri gróður og landslag.
Við fórum á Fitina á föstudaginn og eyddum síðustu dögum sumarfrísins okkar í íslenskri sveitarómantík á Föðurlandi voru í Fljótshlíðinni. Ekkert moskító, ekkert rusl, bara ilmur af íslenskri töðu bændanna og smárablómum sem eru við það að fella krónuna sína, það var yndislegt. Fljótshlíðin skartaði sínu fegursta og minnti okkur enn einu sinni á hversu ótrúlega fallegt landið okkar er.
Við skruppum í berjamó undir Dímon. Þar er krökkt af berjum, risastórum hnullungum sem eru við að springa af safa.
Borðuðum góðan mat af grillinu og nutum lífsins í botn.
1 ummæli:
-Sammmála fyrirsögninni:)
-Og alltaf finn ég það betur og betur eftir því sem ég fer oftar "út".
Föður/móðurlandið er BEST........
Gerða sys
Skrifa ummæli