Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag, hún á afmæli hún Erla, hún er fimmtíuogeinsárs í dag.
Tíminn æðir á öðru hundraðinu og við hlaupum með. Á sautján ára afmælisdaginn hennar trúlofuðum við okkur. Börn, sögðu sumir, það fannst okkur ekki, endist ekki lengi sögðu aðrir, þið eruð alltof ung.
Tíminn er afstæður og spurning hvað er löng ending. Ég vil frekar kalla þetta farsæla vegferð því árin hafa verið góð þótt auðvitað hafi oft gefið á bátinn, enda má spyrja, hver fer yfir hafið án þess að fá á sig pus annað slagið?
Erlan er persóna sem auðvelt er að umgangast og enn auðveldara að elska. Í mínum augum, gimsteinn sem ber af öðrum gimsteinum, þess vegna passa ég svona upp á hann.
Það eru mín forréttindi að fá að hafa hana sem förunaut í gegnum lífið. Við höfum nú skilað 33 köflum skrifuðum af sögunni okkar, jafnmörgum og Kristur lifði hér á jörð.
Ég vona að við fáum að skrifa söguna okkar áfram á góðu nótunum og sameiginleg ósk okkar um lokakaflann rætist... og þau lifðu hamingjusöm til æviloka og gengu saman inn í sólarlagið, tvær krumpaðar sveskjur hönd í hönd...
Það er lýsandi um karakter Erlu að hún gerði orð sveitunga míns Þorsteins Erlingssonar að sínum:
Mig langar að sá
enga lygi þar finni
sem lokar að síðustu
bókinni minni.
Ef þetta er gerlegt er Erla góður kandidat. Elsku Erla mín til hamingju með daginn þinn.
föstudagur, janúar 14, 2011
laugardagur, janúar 01, 2011
Hvað boðar nýárs....
blessuð sól, eða dagrenning? Enn einn hringurinn á byrjunarreit og enn eitt óskrifaða blaðið rétt upp í hendur manns. Stærsta óskin mín er að næstu áramót verði jafnmikið þakkarefni og þessi. Ef okkur auðnast að skrifa söguna okkar án stóráfalla, ef hún verður slysalaus, sjúkdómalaus og allir verða hamingjusamir þá erum við á réttri leið. Hamingjan er að hlakka til næsta dags sagði stórskáldið Halldór Laxness. Það er auðvelt að taka undir það. Hver nýr dagur með hversdaginn innanborðs er sumum ævintýr en öðrum víti.
Ég vona að árið gefi okkur hvern einasta dag tilefni til að brosa við tilverunni og hlakka til næsta dags, þá verð ég kátur.
Með þakklæti kveð ég gamla árið og þakka ykkur lesendum síðunnar fyrir samfylgdina á árinu og bið ykkur Guðs blessunar á nýju ári.
Ég vona að árið gefi okkur hvern einasta dag tilefni til að brosa við tilverunni og hlakka til næsta dags, þá verð ég kátur.
Með þakklæti kveð ég gamla árið og þakka ykkur lesendum síðunnar fyrir samfylgdina á árinu og bið ykkur Guðs blessunar á nýju ári.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)