Það er ekki hægt að skauta framhjá vesturferðinni okkar án þess að nefna hana hér. Ættarmót frá ömmu og afa í Langabotni í Geirþjófsfirði var haldið í Bíldudal og í Botni 7-8- júlí sl. Við fórum allur minn ættleggur og lengdum svo ferðina um viku til að ferðast um vestfirði. Þetta var í stuttu máli sagt ofurgóð ferð.
Ættarmótið sjálft var í hálfgerðum dumbungi, rigning þegar við mættum á föstudagskvöldi en laugardagurinn var þurr að mestu en þá var farið í Botn með bátum og deginum eytt þar. Gengið var á Einhamar þar sem Gísli Súrsson var veginn forðum og svo var leiksýning um sama efni á mjög skemmtilegum nótum.
Einna skemmtilegast var samt að skoða gamla húsið og sjá fyrir sér sögurnar sem mamma sagði okkur.
Við heyrðum sögur af afa og ömmu líka og má ég til með að nefna eina sögu af afa hér. Afi átti byssusafn og var mikil skytta og veiðimaður. Hann var lika með útgerð og reri út á Arnarfjörðinn. Á þessum árum áttum við Íslendingar í stríði við breta sem vildu veiða þorskinn okkar. Einu sinni voru breskir togarar á veiðum í Arnarfirðinum þegar afi reri út að fiska. Hann tók með sér stóra riffilinn og gerði sér lítið fyrir og skaut á togarana þangað til þeir urðu frá að hverfa sökum harðskeytts vestfirðingsins sem vildi þá burt úr firðinum. Þessi saga af afa er víst fræg þarna á svæðinu þó ég hafi verið að heyra hana í fyrsta sinn, en ég var ánægður með afakallinn að gefa þeim svona fingurinn. Verst að heyra ekki þessa fínu sögu fyrr svo maður gæti gumað sig aðeins meira af genunum ;-)
Ættarmótinu lauk á sunnudeginum og þá færðum við okkur á Tálknafjörð í sól og blíðu sem hélst alla vikuna, en á Tálknafirði er tjaldaðstaða til algerrar fyrirmyndar. Við vorum þar í fimm nætur og ferðuðumst þaðan t.d. að Látrabjargi sem var jafnhrikalegt og síðast. Veiddum í soðið í tvígang með öllum ættleggnum og héldum fiskiveislu.
Svo tókum við einn dag í að ferðast til Ísafjarðar og slógum þar upp tjaldbúðum hjá foreldrum Karlotts en þau eiga sumarhús í Arnardal í félagi við nokkra ættingja Gunnhildar. Þaðan fórum við líka í "skreppitúra" hingað og þangað. Bolafjall var einstök upplifun að fara upp á, logn og hiti og alger dauðaþögn þegar við stigum út úr bílnum þar uppi. Við horfðum niður á skýin og inn eftir djúpinu. Vestfirðirnir lágu við fætur okkar og útsýnið langt norður á nyrstu annes landsins var stórbrotið.
Sund og annað skemmtilegt var á dagskránni líka og það var sérlega yndislegt að eyða þessum tíma með fólkinu okkar sem sem á hug okkar og hjörtu öðru fremur í þessu lífi, yndissamfélag og skemmtilegt.
Hrund kom fljúgandi á laugardagsmorgni til að eyða restinni af ferðinni með okkur. Við enduðum ferðalagið með því að gista eina nótt hjá Örnu og Hafþóri í sumarbústað í Húsafelli sem þau höfðu leigt til að enda ferðina sína. Það var notalegur endir og gott að hvíla lúin ferðabein í heita pottinum þar.
Góð ferð sem verður lengi í minnum höfð.
mánudagur, júlí 23, 2012
sunnudagur, júlí 22, 2012
Tími og nenna stýra mér
Líklega er ég ekki með afkastamestu bloggurum landsins þessi misserin enda svo sem ekkert sem beinlínis rekur mig áfram. Ástæðan er sú að ég skrifa þegar ég hef tíma og nennu. Ég er þó hvergi hættur því ég sé á teljaranum að einhverjir nenna að lesa skrifin mín ennþá og svo er þetta líka hálfgildings dagbók fyrir sjálfan mig líka.
Ég er sem fyrr í kofanum í því stóíska andrúmi sem hér ríkir allajafna. Frúin sefur enn og kaffibollinn minn er eini félagsskapurinn sem ég hef í bili og það eina sem rýfur algera þögnina hér er gamla klukkan og Kári kallinn sem andar annað slagið á rúðuna. Hér rigndi lítið, því miður, því jörð hér er þurr og hefði haft svo gott af útlensku úrhelli eins og spáði. Hinsvegar var Kári í essinu sínu og blés af lífs og sálar kröftum og sleit lauf af trjánum mínum hér. Hann er mismikill vinur minn kauðinn sá.
Erlan er vöknuð og er búin að hreiðra notalega um sig hér í sófanum hjá mér í náttfötum og malar eins og kisa. Hún er sá félagsskapur sem gefur mér mesta ánægju í lífinu, í 35 ár hefur hún gengið með mér veginn og skrifað söguna með mér sem einkennist af kaflaskiptum þar sem söguþráðurinn er til skiptis stríður og erfiður og síðan uppstyttur og blíður blær. Í dag er það goluþytur og sumarblær sem býður góðan dag.
Tilfinningin þegar ég renni yfir kaflana okkar er þakklæti, uppskeran er ættleggur, stór og efnilegur, samskiptin eins og best verður á kosið, heimilið okkar skjól, kofinn athvarf frá dagsins önn og elskan flærðarlaus.
Lífið er gott, fyrir alla muni njótið þess vinir.
Ég er sem fyrr í kofanum í því stóíska andrúmi sem hér ríkir allajafna. Frúin sefur enn og kaffibollinn minn er eini félagsskapurinn sem ég hef í bili og það eina sem rýfur algera þögnina hér er gamla klukkan og Kári kallinn sem andar annað slagið á rúðuna. Hér rigndi lítið, því miður, því jörð hér er þurr og hefði haft svo gott af útlensku úrhelli eins og spáði. Hinsvegar var Kári í essinu sínu og blés af lífs og sálar kröftum og sleit lauf af trjánum mínum hér. Hann er mismikill vinur minn kauðinn sá.
Erlan er vöknuð og er búin að hreiðra notalega um sig hér í sófanum hjá mér í náttfötum og malar eins og kisa. Hún er sá félagsskapur sem gefur mér mesta ánægju í lífinu, í 35 ár hefur hún gengið með mér veginn og skrifað söguna með mér sem einkennist af kaflaskiptum þar sem söguþráðurinn er til skiptis stríður og erfiður og síðan uppstyttur og blíður blær. Í dag er það goluþytur og sumarblær sem býður góðan dag.
Tilfinningin þegar ég renni yfir kaflana okkar er þakklæti, uppskeran er ættleggur, stór og efnilegur, samskiptin eins og best verður á kosið, heimilið okkar skjól, kofinn athvarf frá dagsins önn og elskan flærðarlaus.
Lífið er gott, fyrir alla muni njótið þess vinir.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)