Líklega er ég ekki með afkastamestu bloggurum landsins þessi misserin enda svo sem ekkert sem beinlínis rekur mig áfram. Ástæðan er sú að ég skrifa þegar ég hef tíma og nennu. Ég er þó hvergi hættur því ég sé á teljaranum að einhverjir nenna að lesa skrifin mín ennþá og svo er þetta líka hálfgildings dagbók fyrir sjálfan mig líka.
Ég er sem fyrr í kofanum í því stóíska andrúmi sem hér ríkir allajafna. Frúin sefur enn og kaffibollinn minn er eini félagsskapurinn sem ég hef í bili og það eina sem rýfur algera þögnina hér er gamla klukkan og Kári kallinn sem andar annað slagið á rúðuna. Hér rigndi lítið, því miður, því jörð hér er þurr og hefði haft svo gott af útlensku úrhelli eins og spáði. Hinsvegar var Kári í essinu sínu og blés af lífs og sálar kröftum og sleit lauf af trjánum mínum hér. Hann er mismikill vinur minn kauðinn sá.
Erlan er vöknuð og er búin að hreiðra notalega um sig hér í sófanum hjá mér í náttfötum og malar eins og kisa. Hún er sá félagsskapur sem gefur mér mesta ánægju í lífinu, í 35 ár hefur hún gengið með mér veginn og skrifað söguna með mér sem einkennist af kaflaskiptum þar sem söguþráðurinn er til skiptis stríður og erfiður og síðan uppstyttur og blíður blær. Í dag er það goluþytur og sumarblær sem býður góðan dag.
Tilfinningin þegar ég renni yfir kaflana okkar er þakklæti, uppskeran er ættleggur, stór og efnilegur, samskiptin eins og best verður á kosið, heimilið okkar skjól, kofinn athvarf frá dagsins önn og elskan flærðarlaus.
Lífið er gott, fyrir alla muni njótið þess vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli