Það er mikið líf og fjör í húsinu við ána núna. Afi þetta, afi hitt og amma hitt og þetta, endalaust spurningaflóð. Mér hefur oft dottið í hug lagið um hann Ara þessa helgina: "en spurningum Ara er ei auðvelt að svara" nema hér er enginn Ari, kannski samt fróð-ari börn gæti maður ímyndað sér miðað við spurningaflóðið. Það er gaman að sjá hvað þau virðast njóta verunnar hér, ekki að við séum kannski hugsanlega eitthvað að dekra þau meira út af þessari helgi sem er búin að vera tilhlökkunarefni hjá þeim skinnunum, það gæti hugsast.
Ég hef oft hugsað um það hversu gífurleg auðævi felast í svona hóp. Ekki síst þegar fram í sækir og maður eldist og þarf á því að halda að kraftur æskunnar haldi manni ferskum lengur. Það er vissulega hressandi að hafa svona frískan barnahóp á heimilinu, kröfurnar um athygli eru naglfastar og innmúraðar og hver og einn finnur upp á einhverju nýju sem þarf að fá mikla athygli enda oft búið að setja upp heilu leiksýningarnar eða söngatriðin sem verður að hafa formlega sýningu á og auðvitað eru afinn og amman stórhrifin af framtakinu og klappa eins og enginn sé morgundagurinn eftir hvert atriði.
Það er vetrarlegt núna og stilltur frostmorgunn sem leit dagsins ljós þegar röðull renndi sér upp yfir Eyjafjöllin og baðaði frosið suðurlandsundirlendið með morgungeislunum sínum. Austrið verður alltaf svo litríkt á svona morgnum.
Foreldrar barnanna koma á eftir og við ætlum öll að borða saman seinnipartinn, kóngamatur verður á boðstólum og ef ég þekki dætur mínar rétt þá felllur það í kramið hjá þeim, spurning hvernig barnabörnunum líkar kóngamaturinn. Kóngamatur er reyndar bara slatti hakkaður fiskur, nokkur egg, slatti af lauk, dass af haframjöli, smá af hveiti og kryddblöndur í einhverju hlutfalli, þetta flatt í þunnar sneiðar og harðsteikt á pönnu í smjörlíki, agalega sveitó og gott.
Eins og fyrri daginn kallar kaffibollinn á mig frá skriftum og ég er vanur að láta undan því ákalli. Ég læt því renna í tvo og kalla á frúna.
Njótið dagsins.
sunnudagur, nóvember 18, 2012
föstudagur, nóvember 16, 2012
Vetur konungur
Ekki er annað að sjá en að árstíðirnar hafi sinn vanagang þetta árið. Hér er allavega kominn snjór og áin er ísuð enda 3° frost og hún er yfirleitt ekkert að tvínóna við að krapa, ég hef raunar oft undrað mig á hvað þarf lítinn kulda svo hún verði krapaflóð, gerist oft við frostmarkið. Það þýðir auðvitað að hún er svo köld og þess vegna þarf svona lítið frost til að hún frjósi.
Þrátt fyrir kuldann er afskaplega friðsælt að sjá hér yfir, krumminn er að komast í vetrargírinn og maður er farinn að heyra í honum í fjarska eins og gjarnan á froststilltum vetrarmorgnum. Mér finnst ómurinn af honum alltaf vinalegur.
Vinnan tekur sinn toll af tímanum okkar eins og fyrri daginn, það hefur verið mikið að gera hjá okkur undanfarið og væntanlega er ekki mikill letitími framundan. Lögfræðileg verkefni hlaðast á mig og jólasalan er að fara af stað í verslunum og við erum víst þáttakendur í því. Vinnutengd kaupstaðarferð á eftir en fyrst eru það ísvélarþrif, það er fastur liður á tíu daga fresti, ekkert sérlega spennandi verkefni en nauðsynlegt.
"Einn enn áður en lætin byrja" sagði maðurinn, ég ætla að hafa það eins og fá mér einn kaffibolla áður en við komum okkur út í daginn.
Njótið daganna gott fólk.
Þrátt fyrir kuldann er afskaplega friðsælt að sjá hér yfir, krumminn er að komast í vetrargírinn og maður er farinn að heyra í honum í fjarska eins og gjarnan á froststilltum vetrarmorgnum. Mér finnst ómurinn af honum alltaf vinalegur.
Vinnan tekur sinn toll af tímanum okkar eins og fyrri daginn, það hefur verið mikið að gera hjá okkur undanfarið og væntanlega er ekki mikill letitími framundan. Lögfræðileg verkefni hlaðast á mig og jólasalan er að fara af stað í verslunum og við erum víst þáttakendur í því. Vinnutengd kaupstaðarferð á eftir en fyrst eru það ísvélarþrif, það er fastur liður á tíu daga fresti, ekkert sérlega spennandi verkefni en nauðsynlegt.
"Einn enn áður en lætin byrja" sagði maðurinn, ég ætla að hafa það eins og fá mér einn kaffibolla áður en við komum okkur út í daginn.
Njótið daganna gott fólk.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)